Upphitun: FH-Selfoss, N1-deild karla

Upphitun: FH-Selfoss, N1-deild karla

Þriðja umferð N1-deildar karla fer fram fimmtudaginn 14. október þegar taplausir FH-ingar taka á móti nýliðum Selfoss í Kaplakrikanum. Þar má búast við hörkuleik, enda tvö vel mönnuð lið að mætast.



Selfoss
Nýliðar Selfoss sitja í 6. sæti deildarinnar eftir tvær umferðir með tvö stig. Hafa þeir sigrað einn leik en tapað einum.  Um er að ræða leiki gegn Fram, sem tapaðist 33-27 í Safamýrinni, og gegn Val, sem vannst 32-30 í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi.

Selfyssingar unnu 1. deildina síðasta vetur á liði sem var eingöngu skipað heimamönnum, en Selfyssingar höfðu þurft að dúsa í 1. deildinni um fjögurra ára skeið.  Uppbyggingarstarfið hefur greinilega borið ávöxt, því lið Selfyssinga er virkilega sterkt og mun eflaust reyta stig af mörgum liðum í vetur. Þar að auki bættu þeir við sig einum leikmanni,  en Guðjón Drengsson gekk í raðir þeirra frá Fram. Aftur á móti misstu þeir Ársæl Einar Ársælsson, en hann gekk í raðir okkar FH-inga. Annars er augljóst að sterkasta vopn Selfyssinga er liðsheildin, en þar að auki fylgir þeim góður kjarni stuðningsmanna sem hefur hátt hvert sem hann fer.

Síðasti leikur Selfyssinga var, eins og sagt var frá hér áðan, gegn Val í íþróttahúsinu á Selfossi. Í þeim leik voru þeir lengi vel undir, en sýndu gríðarlega góðan karakter og sneru leiknum sér í hag á lokamínútunum. Lokatölur 32-30. Markahæstur var fyrirliði Selfyssinga, Ragnar Jóhannsson, með 9 mörk – en þar er á ferð leikmaður sem okkar menn þurfa að varast.

Fyrri leikir liðanna
Síðasti heimaleikur FH gegn Selfossi fór fram þann 24. febrúar 2008 og var í 1. deildinni. Þar unnu FH-ingar stórsigur á gestunum, 36-23, en staðan var 14-11 í hálfleik. Markahæstur FH-inga í þeim leik var Aron nokkur Pálmarsson, sem skoraði 9 mörk, en Ari Magnús Þorgeirsson skoraði 8 mörk. FH-ingar fóru upp þetta árið en Selfyssingar luku keppni í 4. sæti. Síðasti leikur liðanna á Selfossi var algör andstæða við þann leik, en hann endaði 42-32 fyrir Selfyssingum.

FH
Okkar menn sitja á toppnum með fullt hús stiga eftir tvær umferðir. Leiknir hafa verið leikir gegn Aftureldingu og Haukum og níu marka sigrar unnist í þeim báðum, sem er frábær byrjun á mótinu miðað við gæði andstæðinganna. FH-ingar mega þó ekki ofmetnast, enda Selfyssingar með mjög sterkt lið.

Vart þarf að ræða leikinn á laugardaginn síðastliðinn eitthvað frekar…en ég geri það nú samt, því það er óneitanlega skemmtilegt að rifja upp þennan snilldarsigur. FH-ingar spiluðu vægast sagt frábæran handbolta og sýndu og sönnuðu að þeir ætla sér stóra hluti í vetur. Varnarleikurinn, sóknarleikurinn, markvarslan og stuðningurinn voru til fyrirmyndar og verði þessir hlutir til staðar gegn Selfossi þá verður afar erfitt við okkur að eiga. Markahæstur í liði FH var Ólafur Guðmundsson með 9 mörk, Logi Geirsson stýrði leik FH-inga af miklum myndarskap og lagði upp 9 mörk fyrir félaga sína og svo má ekki gleyma frábærri markvörslu Pálmars Péturssonar, en hann varði 17 skot í leiknum. Það má þó ekki gleyma því að þetta var fyrst og fremst frábær sigur liðsheildarinnar, en hún var í algleymingi á laugardaginn var.

Engar breytingar eru á leikmannahópi FH svo undirritaður viti til, allir sem léku leikinn gegn Haukum eru heilir og þeir sömu og áður (Örn Ingi Bjarkason og Ólafur Gústafsson) eru frá. Það má því búast við gríðarsterku FH-liði á fjölum Kaplakrika á fimmtudagskvöldið – enn betri ástæða fyrir fólk að mæta.

Og talandi um mætingu…

Mætingin og stuðningurinn á Haukaleiknum var í einu orði sagt frábær. FH-ingar fjölmenntu og studdu vel við sína menn og getur undirritaður rétt ímyndað sér hverni

Aðrar fréttir