Upphitun: FH – Selfoss, sunnudaginn 18. mars kl. 19:30

Staðan?

Hún er ósköp einföld. Það er þessi tími ársins. Eftir að hafa verið á toppnum í allan vetur, er komið að úrslitastundu. Tveir leikir, tveir sigrar, þá er deildin okkar annað árið í röð. Þetta byrjar á morgun, gegn því liði sem einna helst hefur gert sig líklegt til að hirða af okkur tignina. Það dugir ekkert nema sigur.

Selfoss er annað af aðeins tveimur liðum sem tekist hefur að leggja okkar menn að velli í deildinni í vetur, ásamt ÍBV. Það var þegar liðin mættust í Vallaskóla þann 19. nóvember síðastliðinn, er Selfyssingar unnu eins marks sigur, 24-23. Þar var það fyrri hálfleikurinn sem reyndist FH-ingum dýr, en heimamenn voru þá langtum fremri. Varð forysta Selfyssinga mest 7 mörk, og þurftu okkar menn því að taka á honum stóra sínum til að komast aftur í stöðu til að ná fram sigri. Það reyndist ekki mögulegt á erfiðum útivelli, og í staðinn verða strákarnir okkar að hefna sín í heimabyggð.

Einar Rafn verður í lykilhlutverki annað kvöld / Mynd: Jói Long

Grunnurinn að sigri Selfyssinga í nóvember var lagður með feykisterkum varnarleik liðsins, eins og sést á hálfleiksstöðunni. 12-7 í hálfleik. Hreinlega bilun. Heimamenn mættu FH-ingum afar framarlega á vellinum, en það virtist koma okkar mönnum á óvart. Það má ekki gerast aftur. Spili Selfyssingar framliggjandi allt-í-botn varnarleik eins og þeir eru færir um að gera, í krafti æsku sinnar og greddu, þá verða FH-ingar að finna lausnir.

Helsta ungstirni Selfyssinga, hinn 16 ára gamli Haukur Þrastarson, fór fyrir heimamönnum í þeim leik. Hann var að vísu ekki markahæstur, en skoraði þó 6 mörk og var einnig feiknasterkur í vörninni. Þetta er leikmaður sem farið hefur mikinn í vetur, og verður að hafa góðar gætur á annað kvöld. Markahæstur Selfyssinga var hægri skyttan Teitur Örn Einarsson með 8 mörk, en hann hefur spilað sig út í atvinnumennsku í vetur og verður liðsfélagi Ólafs Guðmundssonar í IFK Kristianstad á næsta tímabili. Selfyssingar voru án Elvars Arnar Jónssonar, sem er einn þeirra besti maður, og þá var hinn sterki Árni Steinn Steinþórsson ekki kominn til baka eftir meiðsli.

Sunnlendingar hafa farið mikinn í deildinni undanfarnar vikur og meðal annars lagt ÍBV og Hauka að velli af harðfylgi. Þeir leggja aldrei árar í bát, og þess vegna eru þeir einkar hættulegir. Í Eyjum voru þeir 5 mörkum undir í hálfleik, en sneru því við. Með ótrúlegum lokaspretti sneru þeir töpuðum leik gegn Haukum upp í sigur. Undantekning á góðu gengi Selfyssinga kom til um síðustu helgi, þegar þeir duttu óvænt úr leik í bikarkeppninni gegn Fram – líkt og við FH-ingar höfðum fengið að kenna á.

Þjálfarateymið hefur án nokkurs vafa kortlagt lið Selfoss ítarlega undanfarnar vikur / Mynd: Jói Long

Úrslitin réðust vissulega í vítakeppni, en Framarar unnu engu að síður undanúrslitaleik sinn gegn Selfossi á frábærum varnarleik og markvörslu. Safamýrarpiltar voru þremur mörkum undir í hálfleik, en spiluðu gjörsamlega frábæran varnarleik eftir pásu sem varð til þess að þeir höfðu öll völd. Selfyssingar gerðu vel í að koma leiknum í framlengingu, en þrautseigja Framara var mikil.

Víst er, að Selfyssingar mæta til leiks á morgun vitandi fullvel hversu mikla þýðingu hann hefur. Leggi þeir okkar menn að velli og jafni okkur þar með að stigum, þá eiga þeir sigurinn í deildarkeppninni vísan. Í síðustu umferð deildarinnar mæta þeir nefnilega Víkingum, sem ættu að verða Sunnlendingum auðveld bráð. Við þær aðstæður yrðu það innbyrðis viðureignir liðanna, sem réðu úrslitum.

Við leyfum þessu ekki að gerast.

Það hefur verið hikst í okkar mönnum upp á síðkastið. Vissulega. Eftir erfiðan leik í Vestmannaeyjum fóru FH-ingar í Austurberg og töpuðu þar dýru stigi gegn ÍR-liði, sem var án nokkurra lykilmanna. Það hefði verið dýrmætt að hirða bæði stigin þar, enda hefðu þau tryggt okkur algjöra lykilstöðu í þeim tveimur leikjum sem eftir eru. Við hefðum mátt tapa leiknum annað kvöld og samt verið með þetta allt saman í okkar höndum. Í staðinn fáum við algjöran úrslitaleik um deildarmeistaratitilinn.

Þrátt fyrir þetta hikst, er ég ofboðslega bjartsýnn fyrir morgundaginn. Strákarnir hafa fengið tíma til að hvíla eftir þetta jafntefli í Breiðholti. Þeir hafa fengið tíma til að undirbúa sig fyrir stærsta deildarleik ársins, hreinan úrslitaleik við Selfoss. Þeir hafa haft rými til að greina, hvað fór úrskeiðis síðast og hvernig er hægt að laga það í þetta sinn. Og þeir munu laga það í þetta sinn, það efast ég ekki um.

Við urðum deildarmeistarar í fyrra, einmitt eftir sigur á Selfossi í Krikanum. Það var nokkuð skemmtilegt, er það ekki? Gerum það aftur! / Mynd: Fjarðarfréttir

Ég er bjartsýnn því þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta í okkar höndum. Við höfum unnið okkur inn fyrir þeirri stöðu. 20 leikir, 15 sigrar, 2 jafntefli og aðeins 3 töp. Hvílíkt tímabil! Til samanburðar þá urðum við deildarmeistarar í fyrra á 16 sigurleikjum og 6 tapleikjum, með heilum 5 jafnteflisleikjum – mesta fjölda jafnteflisleikja í deildinni það árið. Strákarnir hafa farið á kostum á löngum köflum í vetur, og gefa þetta ekki frá sér svo auðveldlega. Við sækjum þennan titil, annað árið í röð. Bikarnum fer það vel, að vera staðsettur í Kaplakrika.

Við þurfum að vera tilbúin í þennan slag með strákunum, því Selfyssingar gefa allt sitt. Sá síðasti út slekkur ljósin. Það verða allir í Krikanum. Þeir loka Pylsuvagninum, reka fólk upp úr pottunum í lauginni. Rennsli Ölfusár stoppar. Ég treysti á það, að við mætum til leiks tilbúin að mæta þeim af fullum krafti, bæði á velli og í stúku. Öðruvísi hefst þetta ekki. Við verðum að vilja þetta meira en þeir, því viljinn er öllu yfirsterkari. Höldum þessum titli heima.

Við erum FH!

Aðrar fréttir