Upphitun: FH-Stjarnan, Bikarúrslit 2. flokks karla

Upphitun: FH-Stjarnan, Bikarúrslit 2. flokks karla

FH-ingar eiga tvo fulltrúa í Höllinni á sunnudaginn. Auk 4. flokks kvenna komst 2. flokkur karla í bikarúrslitin og leika þeir gegn Stjörnunni kl 19:00. Þar má búast við spennandi leik, þrátt fyrir að liðin leiki ekki í sömu deild er það vitað að ekkert er gefið þegar kemur að bikarkeppninni. Lið Stjörnunnar kemur vafalaust til með að selja sig dýrt og verða FH-ingar að eiga góðan leik til að leggja þá að velli.

Stjarnan
Lið Stjörnunnar er í 3. sæti annarar deildar með 12 stig eftir 9 leiki, 8 stigum á eftir toppliði Fram en á þó tvo leiki til góða. Liðið hefur unnið 6 leiki en tapað 3 leikjum.

Á leið liðsins í úrslit bikarkeppninnar sigruðu Garðbæingar lið ÍBV, ÍR og Selfoss. Athyglisvert þykir að þeir skuli hafa náð svona langt, en tvö síðarnefndu liðin eru í efstu deild og þóttu því sigurstranglegri fyrirfram. En á baráttunni náðu þeir í úrslitin og eru því augljóslega sýnd veiði en ekki gefin fyrir 1. deildarlið FH.

FH
FH-ingar leika í 1. deild þetta árið líkt og oftast áður. Þeir sitja í 5. sæti deildarinnar með 11 stig eftir 10 leiki, 4 stigum á eftir toppliði Víkings. FH-ingar eiga þó leik til góða. Liðið hefur sigrað 5 leiki, gert eitt jafntefli en tapað 4 leikjum.

Eins og áður sagði eru FH-ingar deild ofar en lið Stjörnunnar og verða því að teljast sigurstranglegri. Strákarnir í flokknum hafa í gegnum tíðina verið meðal þeirra bestu í sínum aldursflokki líkt og svo margir aðrir flokkar sem að FH-ingar eiga og eru því ekki óvanir því að sigra í stórum leikjum. Þó verða þeir að fara með allri gát í þennan leik, því Stjörnumenn geta á góðum degi ollið okkar mönnum vandræðum.

Á leið liðsins í úrslitin sigruðu FH-ingar nágranna okkar í Haukum, 28-26, í Krikanum. Í undanúrslitum lék liðið gegn Akureyri og vann þar öruggan 6 marka sigur, 38-32.

Við viljum hvetja alla FH-inga til að mæta í Laugardalshöllina á sunnudaginn til að horfa á þennan hörkuleik. Strákarnir eru í góðum séns á því að vinna dollu og því ber okkur sem stuðningsmönnum að styðja liðið okkar til sigurs. Leikurinn hefst eins og áður segir kl. 19:00. Áfram FH!

Aðrar fréttir