Upphitun: FH – Stjarnan, miðvikudaginn 22. nóvember 2017

Stundum æxlast þannig í íþróttum að leikur verður miklu mikilvægari en maður bjóst við fyrir mót. Þannig er staðan fyrir leik kvöldsins gegn Stjörnunni. FH-ingar voru á svakalegu skriði fyrir viku og núna er orðið full auðvelt að vera bölsýnn yfir næstu vikum. Besta meðalið við slíku er sigur og við erum heppin að fá strax annan leik eftir svekkjandi tap gegn Selfossi.

Mótherjinn

Gengi Stjörnunar hefur verið upp og niður í vetur. Í síðustu umferð slátruðu þeir ÍR en þar áður töpuðu þeir fyrir Val. Þeir sitja um miðja deild og virðast ekki beint líklegir til að blanda sér í toppbaráttuna, en alveg öruggir um að komast í úrslitakeppnina. Líklega er stóra markmiðið þeirra heimavallarréttur í henni, það væri virkilega flott fyrir liðið. Þeir hafa ekki náð að vinna tvo leiki í röð síðan í fyrstu tveimur umferðunum, standa uppi með 11 stig, þeim svíður væntanlega að hafa þegar gert 3 jafntefli.

Þeirra hættulegasti maður er Egill Magnússon, sem kom til Stjörnunar í þeim tilgangi að fylla í skarð Ólafs Gústafssonar og hefur gert það með miklum prýðum það sem af er vetri. Næstur hjá þeim er Ari Magnús með 37 mörk. Eins og sést á þessu er sóknarleikur Stjörnunar borinn upp af skyttum liðsins og verður gaman að sjá FH vörnina reyna að slökkva á þeim.

Strákarnir fá tækifæri til að snúa aftur á sigurbraut í kvöld / Mynd: Brynja T.

Varnarlega eru þeir um meðal, hafa fengið á sig um það bil 26 mörk í leik það sem af er tímabils. Það verður ákaflega forvitnilegt að sjá hvort að þeir reyni að trufla sóknarleik FH með því að taka sér Selfoss og ÍBV til fyrirmyndar, bæði lið náðu að fara illa með FH með mismunandi útfærslum á framliggjandi vörn. Ef svo er, þá er það FH-inganna að sýna að þeir lærðu af þessum tveim grátlegu töpum.

FH

Eins og áður sagði var allt í fína í Kaplakrika fyrir viku og síðan hefur liðið tapað tvisvar í röð með einu marki. Í báðum leikjum náði hitt liðið að slökkva á sóknarleik FH tímabundið og það tók of langan tíma að finna lausnir. Í báðum leikjum náðu FH-ingar að gera leikinn spennandi undir lokin en ekki stela stigi. Varnarleikur liðsins var fínn í báðum leikjum en náði ekki þeim hæðum sem hann gerði fyrr á tímabilinu.

Mikil barátta er framundan í kvöld. Vertu með! / Mynd: Brynja T.

Ólíklegt er að Ágúst Birgisson taki þátt í kvöld en annars er lítið að frétta af liðinu. Þú þarft að fara aftur til ársins 2011 til að finna síðasta leik sem Stjarnan vann gegn FH, svo sagan er með okkur í liði. Ég held að liðið muni mæta bandbrjálað í þennan leik, staðráðið í að leiðrétta allan miskilning um að það sé á einhvern hátt að dala. Þetta voru tveir leikir og ekkert annað, núna þarf að spyrna frá sér og komast aftur á sigurbraut. Stjarnan er erfið viðureignar og mikilvægt að stuðningsmenn fjölmenni og styðji liðið til sigurs. Um að gera að sleppa kvöldmat og fá sér dýrindis borgara fyrir leikinn og hrópa svo strákana til sigurs.

Við erum FH!

– Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir