Upphitun: FH-Stjarnan, N1-deild karla

Upphitun: FH-Stjarnan, N1-deild karla

Á morgun, mánudag, leika FH-ingar gegn Stjörnunni í Kaplakrikanum. Leikurinn er þriðji leikur beggja liða í 3. umferð N1-deildarinnar og hefur gríðarlegt mikilvægi fyrir bæði lið, enda standa bæði lið í mikilli baráttu; FH-ingar í efri hluta deildarinnar en Garðbæingar á botninum.


Stjarnan úr Garðabæ mætir í Krikann á morgun

Stjarnan
Lið Stjörnunnar situr á botni deildarinnar með 7 stig eftir 16 leiki, 2 stigum á eftir Frömurum sem að eru í sætinu fyrir ofan en 3 stigum á eftir Gróttu, sem að vann góðan sigur á Akureyri fyrr í dag. Garðbæingar hafa unnið 3 leiki, gert 1 jafntefli en tapað alls 12 leikjum.

Það er klárt mál að Stjörnumenn mæta snælduvitlausir í Krikann á morgun enda hafa þeir engu að tapa. Eftir slappt gengi að undanförnu hafa þeir misst Fram og Gróttu upp fyrir sig og sitja í fallsæti þegar einungis 5 leikir eru eftir af mótinu. Garðbæingar hafa ekki unnið allt of marga leiki eftir áramót og þurfa því að fara að ná í stig ætli þeir sér áframhaldandi veru í deildinni.

Stjarnan getur oft á tíðum spilað fínan handbolta, þótt þeir hafi ekki sýnt það oft í vetur. Liðið er frekar ungt, en inni á milli eru gamlir jaxlar sem oft geta reynst dýrmætir.

Síðasti leikur liðanna
Ekki er langt síðan þessi lið mættust síðast, en þann 22. febrúar síðastliðinn mættu Garðbæingar í Krikann. Þar unnu FH-ingar sigur, 25-22, eftir dágott ströggl. Stjörnumenn mættu baráttuglaðir til leiks á sama tíma og FH-ingar virtust ekki hafa neinn sérstaklega mikinn áhuga á verkefninu. FH-ingar unnu þó á endanum sigur, þrátt fyrir að spila langt undir getu. Undirritaður mælir ekki með því að FH-ingar endurtaki leikinn þegar kemur að spilamennskunni, enda er hætt við því að það komi í bakið á þeim í lok leiks.

FH
FH-ingar sitja í 4. sæti deildarinnar með  19 stig eftir 16 leiki, 7 stigum á eftir toppliði Hauka. Liðið hefur unnið 9 leiki, gert 1 jafntefli en tapað 6 leikjum – nú síðast á fimmtudaginn gegn Akureyri.

FH-ingar eiga vafalaust erfiðan leik fyrir höndum á morgun, enda hefur Stjarnan að gríðarlega miklu að keppa. Strákarnir vilja eflaust sanna sig á nýjan leik eftir erfitt tap gegn Akureyri á fimmtudaginn var, þar sem að fyrri hálfleikurinn var hörmung en barátta liðsins í seinni hálfleik var aðdáunarverð. Það dugði þó ekki, strákarnir fengu að lúta í gólf á endanum, sem að voru mikil vonbrigði.

Til að vinna leikinn gegn Stjörnunni þurfa strákarnir að ráða hraðanum í leiknum auk þess sem að varnarleikur og markvarsla, sem að ekki voru í nægilega góðu standi í fyrri hálfleiknum á Akureyri, þurfa að detta í gang. Nái strákarnir því upp liggur enginn vafi á því hvernig leikurinn endar, enda er lið FH sterkara á pappírunum.

Við viljum hvetja alla til að mæta í Krikann á morgun að styðja strákana okkar til sigurs, enda hefur þessi leikur gríðarlega mikið mikilvægi fyrir framhaldið. Að sjálfsögðu verður mikið að gerast í Krikanum fyrir leik, FH-borgarinn verður á sínum stað og ætlar starfsfólk HRESS í Hafnarfirði að sjá um grillið (meira síðar), gamlir stórleikir verða rifjaðir upp á skjávarpa fyrir leik og svo verður Bónusskotið á sínum stað rétt eins og Vegamótaleikurinn í leikhléum. Það er því um að gera fyrir alla að mæta í Krikann og taka þátt í stemningunni víðfrægu! Húsið opnar kl. 18:30 en leikurinn sjálfur hefst kl. 19:30. Áfram FH!

Aðrar fréttir