Upphitun: FH-Stjarnan, N1-deild karla

Upphitun: FH-Stjarnan, N1-deild karla

Á morgun, mánudaginn 22. febrúar, taka okkar menn í FH á móti liði Stjörnunnar úr Garðabæ. Ljóst er að þar er um hörkuleik að ræða, enda hafa Stjörnumenn yfir ágætis liði að skipa sem að oft getur valdið toppliðum vandræðum. Þeir hafa harma að hefna, enda unnu FH-ingar gríðarlega öruggan 11 marka sigur síðast þegar þessi lið mættust, 29-18, í Mýrinni. Þeir hafa hins vegar oft á tíðum sýnt fín tilþrif og gerðu m.a.s. jafntefli við Akureyri í síðustu umferð. Semsagt sýnd veiði en langt því frá gefin.


Stjarnan úr Garðabæ kemur í heimsókn í Krikann á morgun.

Stjarnan
Lið Stjörnunnar er eins og er í 7. og næstneðsta sæti deildarinnar með 5 stig, 2 stigum á undan botnliði Fram en 3 stigum á eftir Gróttu. Liðið hefur unnið 2 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 8 leikjum.

Ljóst er að á brattann verður að sækja fyrir lið Stjörnunnar á morgun ef þeir ætla sér að sigra leikinn. Á pappírunum er lið FH talsvert sterkara og er auk þess á betra skriði heldur en lið Garðbæinga. Þó geta þeir komið á óvart, en þeir náðu eins og áður sagði jafntefli gegn gríðarsterku liði Akureyringa í síðustu umferð. 

Síðasti leikur liðanna
Eins og áður sagði var síðasti leikur liðanna lítt spennandi. FH-ingar voru með talsverða yfirburði frá byrjun og náðu Stjörnumenn aldrei að sýna neitt sem að gerði okkar mönnum erfitt fyrir. Leiknum lauk með 11 marka sigri FH-inga, 29-18. Markahæstur FH-inga í það skiptið var Ólafur Guðmundsson með 8 mörk, á eftir honum komu þeir Ásbjörn Friðriksson og Ólafur Gústafsson með 6 mörk.


Óli Guðmunds skoraði 8 í síðasta leik liðanna

FH
FH-ingar koma inn í þennan leik fullir sjálfstrausts.  Síðasti leikur þeirra gegn Gróttu endaði með feikigóðum sigri úti á Nesi, 30-27. Sá leikur var jafn allan tímann og sýndu strákarnir andlegan styrk sinn með því að klára leikinn.

Lið FH er í 3. sæti deildarinnar með 15 stig, einu stigi á eftir liði Vals sem að er í 2. sætinu og svo 5 stigum á eftir toppliði Hauka. Þeir hafa unnið 7 leiki, gert eitt jafntefli og tapað 4 leikjum. Það er því ljóst að staða liðanna tveggja í deildinni er gjörólík, FH er í harðri baráttu um toppsæti á meðan Stjarnan berst fyrir lífi sínu á botni deildarinnar. Þó skulu okkar menn ekki vanmeta Stjörnuna, það hefur sýnt sig margoft áður að fari FH að vanmeta andstæðing sinn getur allt endað með ósköpum. Spili strákarnir eins og þeir spiluðu gegn Gróttu munu þeir vafalaust bera sigur úr býtum.

Við viljum hvetja alla FH-inga til að mæta í Krikann og styðja okkar menn, oft getur stuðningur fólksins í pöllunum skipt sköpum þegar um erfiða leiki er að ræða. Hinir víðfrægu FH-borgarar verða að vanda til sölu á hlægilegu verði og því er tilvalið að skella sér á leikinn, krækja sér í einn sveittan hammara og horfa á gæðahandbolta. Leikurinn hefst kl. 19:30 og er staðsettur í Kaplakrika, sem að er orðinn víðfrægur sem Mekka handboltans á Íslandi og ekki að ástæðulausu…!

Allir að mæta – Áfram FH!


Aðrar fréttir