Upphitun: FH – Stjarnan U, föstudaginn 1. febrúar kl. 19:30

Hart verður barist í Kaplakrika í kvöld þegar ungmennalið Stjörnunnar kemur í heimsókn, í 13. umferð Grill 66 deildar kvenna. Stelpurnar okkar leitast þá eftir því að komast aftur á sigurbraut, og að sama skapi er lið Stjörnunnar enn í leit að fyrsta sigri sínum í vetur. Tvö mikilvæg stig eru undir.

Eftir svekkjandi tap í Grafarvogi í síðustu viku sitja stelpurnar okkar í 6. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Fram U í 5. sætinu, en þó með tvo leiki til góða. Þá verður að nýta vel, ætli FH-liðið sér ofar í töflunni.

Andstæðingurinn að þessu sinni, lið Stjörnunnar U, er eins og áður sagði án stiga í Grill 66 deildinni. Sú staðreynd að Garðbæingar eru neðar í töflunni skiptir hins vegar engu þegar út á völlinn er komið. Það sannaðist í síðustu umferð í Dalhúsum – Fjölnisliðið var fyrir þann leik í næstneðsta sæti deildarinnar, en úr varð jafn leikur sem hinar gulklæddu unnu. Ekkert fæst gefins í þessu sporti. Við verðum að mæta andstæðingnum, sama hver hann er, af fullri hörku.

Sé miðað við síðasta leik Stjörnunnar í deildinni er leikur liðsins að færast í rétta átt. Töpuðu Garðbæingar naumlega gegn liði Gróttu, 21-22, eftir að hafa leitt í hálfleik með tveimur mörkum. Var það fyrsti leikur FH-inganna Hildar Guðjónsdóttur og Hönnu Jónu Sigurjónsdóttur með Stjörnunni, en þær fóru yfir á láni nú í janúar.

Freydís Jara gekk til liðs við okkur frá Stjörnunni í janúar / Mynd: Brynja T.

Úr hinni áttinni kom Freydís Jara Þórsdóttir til okkar FH-inga, en hún var einna besti leikmaður Stjörnunnar U fram að áramótum. Lék hún meðal annars með liðinu þegar það mátti sætta sig við 12 marka tap (15-27) gegn okkar stelpum í október. Gaman verður að sjá hana spreyta sig gegn sínum gömlu félögum í kvöld.

Frá henni og stöllum hennar í FH-liðinu þurfum við að fá álíka frammistöðu og boðið var upp á í síðasta heimaleik liðsins, gegn U-liði Fram. Leikirnir tveir, gegn Fram U og Fjölni, voru (líkt og FH-búningurinn) eins og svart og hvítt. Sóknin var stirð og klaufamistök voru tíð. Það má ekki.

Of fáir léku á pari, og því þurfum við nú helst að fá fugl. Jafnvel örn. Sveiflan þarf að vera í lagi frá fyrstu mínútu, því annars er hætt við að lendingin verði í glompu. Og það vill enginn.

Stelpurnar taka sig til og rétta úr kútnum í kvöld. Það er ég sannfærður um. Þær munu sýna góðan leik og sigra að auki. Það er mikið í þær spunnið, og þegar takturinn finnst gerast góðir hlutir. Við hvetjum ykkur, kæru FH-ingar, að kíkja í Krikann í kvöld og sjá stelpurnar okkar springa út að nýju. Leggjum grunninn að góðri helgi.

Við erum FH!

– Árni Freyr

Aðrar fréttir