Upphitun: FH – Valur, laugardaginn 12. september kl. 18:00

Handboltaárið 2020 hefur verið súrsætt til þessa. Þegar keppni var hætt í deildinni í marsmánuði höfðu okkar menn unnið alla deildarleiki ársins, 6 talsins, og flesta þeirra vel sannfærandi. Þetta var allt að smella. Tveir leikir eftir, tvö stig í topplið Vals – hver veit hvað hefði gerst, hefði ekki verið fyrir faraldurinn?

Hefði deildarmeistaratitillinn endað í Krikanum? Hefði FH-liðið á góðu skriði skapað usla í úrslitakeppninni? Við þeim spurningum fæst ekki svar, þessi saga fær ekki fullnægjandi endi. Komið er að þeirri næstu, það er fyrir mestu. Handboltinn snýr aftur, og því ber að fagna. Það er um að gera að byrja með látum. Fyrsti leikur strákanna okkar í deildinni þetta tímabilið er einmitt gegn krýndum deildarmeisturum síðasta tímabils, Valsmönnum frá Hlíðarenda.

Lið Vals hefur lítið breyst frá síðustu leiktíð. Mestu breytingarnar hafa orðið á markmannsstöðunni, en Daníel Freyr Andrésson hélt til Svíþjóðar að tímabilinu loknu og gekk til liðs við GUIF. Þá er Hreiðar Levý Guðmundsson ekki lengur til taks, en hann var á láni frá Selfossi á síðustu leiktíð. Í stað þeirra hafa Valsmenn fengið ungverska unglingalandsliðsmanninn Martin Nagy frá Pick Szeged, sem verður spennandi að fylgjast með í vetur. Einar Baldvin Baldvinsson mun veita Nagy samkeppni um stöðuna, en hann var áður á láni hjá Selfossi. Við feiknarsterkan hóp útileikmanna hafa bæst þeir Tumi Steinn Rúnarsson (frá Aftureldingu) og Þorgeir Bjarki Davíðsson (frá HK). Tumi Steinn er lunkinn leikstjórnandi, sem alinn er upp að mestu á Hlíðarenda og eykur enn breidd Valsmanna í þeirri stöðu, og þá er Seltirningurinn Þorgeir Bjarki fenginn til að auka samkeppnina í hægra horni. Þaðan misstu Valsmenn Ásgeir Snæ Vignisson, en hann er farinn út í Eyjar.

Valinn leikmaður er í hverri stöðu hjá Val, og oftar en ekki tveir. Gæðin eru gríðarleg. Magnús Óli Magnússon, Anton Rúnarsson, Róbert Aron Hostert, Agnar Smári Jónsson – svona má lengi telja. Liðið býr yfir augljósum gæðum sóknarlega, en varnarleikur þess er meginástæða þess að það vinnur leiki. Ekkert lið fékk færri mörk á sig í fyrra en Valur, eða 24.2 að meðaltali í leik, og ekkert lið var með betri hlutfallsmarkvörslu. Haldi Valsmenn áfram á þeirri braut, verða þeir illviðráðanlegir í vetur sem fyrr.

Leikir liðanna tveggja síðasta vetur voru um margt ólíkir, en náðu liðin í sitthvorn sigurinn. Í fyrri leik liðanna, sem fram fór í Krikanum, leiddu FH-ingar með yfirburðum lengst af. Lauk honum með þriggja marka sigri okkar manna, 26-23, en grunninn að sigrinum lögðu FH-ingar með ótrúlegum upphafskafla. 12-3 var staðan eftir rétt rúmlega korter, hreint ótrúlegar tölur. Í seinni leik liðanna voru ekki síður miklar sveiflur, en þar unnu Valsmenn með eins marks mun eftir mikla dramatík. Lokatölur 29-28, Hlíðarendapiltum í vil.

Phil Döhler fór á kostum í leik liðanna í Krikanum á síðustu leiktíð / Mynd: Jói Long

Líkt og á Hlíðarenda hafa tiltölulega litlar breytingar átt sér stað í Kaplakrika þetta sumarið. Línumaðurinn efnilegi Eiríkur Guðni Þórarinsson, sem uppalinn er hjá Val, gekk til liðs við okkur frá HK. Skyttan sterka Jóhann Birgir Ingvarsson fór frá okkur í hina áttina, en hann hafði einmitt leikið með HK á láni fyrri hluta síðasta tímabils. Að lokum fór markvörðurinn Sigurður Dan Óskarsson í Stjörnuna. Kjarninn helst sá sami og hefur gert góða hluti undanfarin tímabil, og Sigursteinn Arndal er orðinn ári eldri sem þjálfari í efstu deild. Allar forsendur eru fyrir góðu gengi hjá okkar mönnum.

Það er kærkomið að fá strax í fyrstu umferð tækifæri til þess að mæla sig upp við eitt þeirra liða, sem ætla sér það sama og við í vetur. Við komumst ekki upp með neitt annað, en að mæta strax til leiks upp á okkar besta. Það er ekkert annað í boði. Fyrir okkur áhorfendur eru það svo sönn forréttindi, að fá leik sem þennan í kjölfarið á langri pásu. Handbolti á Íslandi kemst ekki á mikið hærri gæðastall en þessi lið geta boðið upp á þegar þau eru á sínum degi. Njótum. Hvort sem er í stúkunni eða heima í stofu, njótum.

Við erum öll almannavarnir. Skráum okkur í Mugg.

Við erum FH!

– Árni Freyr

Aðrar fréttir