Upphitun: FH – Valur, mánudaginn 19. febrúar 2018

Það styttist óðfluga í annan endann á deildarkeppninni, og er svo komið að næstsíðasti heimaleikur okkar manna í deildinni fer fram annað kvöld. Þessi viðureign er ekkert smáræði, enda mætast þar stálin stinn – stórveldin tvö í íslenskum handbolta, FH og Valur. Er þetta með allra stærstu deildarleikjum ársins, og án efa einn þeirra sem mun ráða úrslitum þegar talið verður upp úr pokunum í lok næsta mánaðar.

Síðustu tveir leikir hafa verið daprir af hálfu FH-liðsins, sem annars hefur farið á kostum í vetur. Þar stóð bikarleikurinn gegn Fram upp úr, en 7 marka tap á heimavelli er nokkuð sem við eigum ekki að venjast – hvað þá gegn liði sem strákarnir höfðu murkað lífið úr í hinum tveimur viðureignum liðanna í vetur. Leikurinn gegn Fjölni í Dalhúsum síðasta mánudag leit lengi ekki vel út, mest voru nýliðarnir með 5 marka forskot á strákana okkar og virtust ætla að hirða stigin tvö. Með góðri baráttu komust FH-ingar aftur inn í leikinn og voru raunar með tveggja marka forskot þegar skammt var til leiksloka, sem þeir aftur á móti glopruðu niður á klaufalegan máta.

Eitt jafntefli var fengurinn úr síðustu tveimur leikjum, gegn liðunum í 10. og 11. sæti deildarinnar – heldur mögur veiði. Hvað olli því? Fyrsta hugsunin sem skýtur upp kollinum er vanmat, augljóslega. Eftir 7 sigurleiki í röð í deild og bikar er skiljanlegt, að sú hugmynd seytli í huga leikmanna að þeir séu ósigrandi. En þá fyrst eykst hættan á því, að menn misstígi sig. Hrasi, jafnvel. Þá er mikilvægara en nokkru sinni, að reisa sig á fætur aftur. Hakan upp, kassinn út.

Áfram með okkur! / Mynd: Jói Long

Er til betri endurkomuleikur en þessi? Liðið sem við mætum, Valur, á helst til of góðar minningar af síðustu heimsóknum sínum í Krikann. Þar unnu þeir allar viðureignir liðanna í úrslitakeppninni síðasta vor. Þar lyftu þeir dollunni stóru. Meistararnir ríkjandi eru 6 stigum á eftir okkar mönnum sé litið á töfluna í dag, en þeir eiga leik til góða og eru svo sannarlega eitt þeirra liða sem með eru í slagnum um titlana þetta árið.

Hvatinn hlýtur að vera til staðar, bæði fyrir leikmenn og stuðningsmenn FH-liðsins. Við viljum ekki bara rífa okkur upp af afturendanum og slá tóninn fyrir þennan síðasta mánuð deildarkeppninnar, heldur viljum við hefnd.

Strákarnir áttu einn sinn allra besta leik á tímabilinu, ef ekki þann besta, þegar þeir mættu Valsmönnum í október síðastliðnum. Leikið var í Valshöllinni, og fóru FH-ingar þar með 12 marka stórsigur af hólmi eftir að hafa leitt með 10 mörkum í hálfleik. Þar sáum við FH-liðið eins og það gerist best. Það skein úr andliti hvers og eins einasta FH-ings, að menn voru tilbúnir í slaginn. Varnarleikurinn var stórkostlegur. Þar á eftir fylgdi sóknin. Við sáum baráttu í bland við tilþrif, og úr varð uppskrift að frábærum sigri og skemmtun.

Óðinn Þór var magnaður í Dalhúsum, og skoraði helming marka FH-liðsins / Mynd: Jói Long

Tiltölulega margt þarf að breytast frá síðastliðnum mánudegi ef við eigum að leggja Valsmenn öðru sinni á þessu tímabili. Hægri vængurinn var að vísu frábær – Óðinn Þór var óaðfinnanlegur í horninu með 15 (!) mörk í 17 skotum, og þá bætti Einar Rafn við heilum 9 mörkum úr skyttunni. Markverðirnir stóðu vel milli stanganna, en annars staðar vantaði framlag. Það má ekki í liðsíþrótt.

Þar fyrir utan virtist vanta einhvern neista. Sama átti við um Fram-leikinn. Þessi neisti var til staðar þegar strákarnir léku við Val í október, og er ómissandi hluti leiksins. Án neista verður ekkert bál, en ég efast ekki um að hann verði til staðar annað kvöld. Bara það að sjá kunnugleg andlit andstæðinganna ætti að nægja.

Við þurfum á ykkur að halda á mánudag, kæru FH-ingar. Strákarnir þurfa á ykkur að halda. Að baki eru erfiðir tveir leikir, og meiðsli lykilmanna hrjá okkur enn, en með þéttum stuðningi ykkar munum við láta bongótrommuna þagna. Sýnum úr hverju við erum gerð.

Við erum FH!

Aðrar fréttir