Upphitun: FH – Valur, N1-deild karla

Upphitun: FH – Valur, N1-deild karla

Orrusta nr. 2 í stríðinu um sæti í úrslitakeppninni verður háð á morgun(4. apríl, betur þekktur sem annar í páskum). Þá mæta KFUM-drengirnir úr Reykjavík (Valur) og leika við heimamenn í FH. Leikurinn hefur gríðarlegt mikilvægi fyrir bæði lið, enda í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni.


KFUM-drengirnir úr höfuðborginni mæta í Krikann á morgun.

Valur
Lið Vals situr í 2. sæti deildarinnar með 23 stig, 5 stigum á eftir deildarmeisturum Hauka en einungis 1 stigi á undan Akureyri og HK, sem að eru í 3 og 4. sæti. Þá eru þeir 2 stigum á undan FH-ingum, sem að eru eins og er í 5. sæti deildarinnar. Valsmenn hafa unnið 10 leiki, gert 3 jafntefli en tapað 6 leikjum.

Ljóst er að okkar bíður verðugt verkefni á morgun. Valsarar eru á góðu skriði í deildinni og hafa unnið tvo síðustu leiki sína, gegn Akureyri og Haukum. Valsmenn eru góðir varnarlega séð og fá yfirleitt fá mörk á sig. Þá eru þeir snöggir upp, með menn eins og Arnór Gunnarsson í fararbroddi.

Síðasti leikur Vals var gegn Akureyri þann 31. mars síðastliðinn. Þar unnu þeir góðan 2ja marka sigur, 24-22.

Síðasti leikur liðanna
Síðasti leikur liðanna fór fram í Vodafone-höllinni þann 12. desember síðastliðinn. Þar unnu FH-ingar 3ja marka sigur, 23-20, í jöfnum og spennandi leik.

FH
FH-ingar sitja í 5. sæti deildarinnar með 21 stig, 1 stigi á eftir Akureyri og HK sem eru í 3-4 sæti deildarinnar. Þeir hafa unnið 10 leiki, gert 1 jafntefli og tapað 8 leikjum.

Síðasti leikur FH-inga var vægast sagt frábær, innan vallar sem utan. Liðsmenn FH léku vel og unnu verðskuldaðan sigur á Fram, 29-28. Þá voru stuðningsmenn FH stórkostlegir í stúkunni og hvöttu lið sitt frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Umgjörð leiksins er frábær, eins og okkur FH-ingum einum er lagið. FH-grillið er á sínum stað, en vaktina standa að þessu sinni heljarmennin Eggert Bogason, Óðinn Björn Þorsteinsson og Bergur Ingi Pétursson. Það verður því boðið upp á svokallaða „Trukkaborgara“ að þessu sinni. Bónusskotið verður svo á sínum stað sem og Vegamótaleikurinn.

En þá að ykkur, stuðningsmönnum FH. Á morgun hafið þið tækifæri til að taka þátt í leiknum í auknum mæli. Á morgun hafið þið tækifæri til að hjálpa ykkar mönnum í átt að sigri og þar með sæti í úrslitakeppninni eftirsóttu. Við mælumst því til þess að þið nýtið þetta tækifæri, grípið ykkur klöppu í hönd og styðjið ykkar menn til sigurs. Leikurinn hefst kl. 19:30 og er eins og áður sagði í Mekka handboltans, Kaplakrika. Áfram FH!

Aðrar fréttir