Upphitun: FH – Valur, sunnudaginn 31. mars kl. 19:30

Sannkallaður stórleikur fer fram í Mekka í kvöld, en bikarmeistarar FH taka þá á móti einu allra besta liði deildarinnar, Valsmönnum frá Hlíðarenda. Fyrir leik kvöldsins eru liðin í 3 og 4. sæti deildarinnar, og eiga gestirnir tvö stig til góða á okkar menn.

Stutt er síðan liðin mættust síðast, sælla minninga. Þrjár vikur, nánar tiltekið. Það var í sjálfum bikarúrslitaleiknum, þar sem strákarnir okkar stóðu verðskuldað uppi sem sigurvegarar.

Sú staðreynd, að svo stutt er liðið frá því liðin mættust síðast gerir Valsmenn sérlega varasama. Ekki hefur gefist tími til að láta gróa um heilt, og eins og við vitum er sært dýr hættulegur andstæðingur.

Ekki það, að þeir eru undir öllum kringumstæðum erfiður andstæðingur við að eiga. Hvergi hefur verið tjaldað eins miklu til (eða jafn margir byggingakranar reistir) og á Hlíðarenda. Valinn maður er í hverju rúmi og væntingarnar eru himinháar, líkt og fermetraverðið.

Talandi um að vera valinn. Besti leikmaður Vals á þessu tímabili, okkar eigin Magnús Óli Magnússon, hefur nú spilað sig inn í plön Guðmundar Guðmundssonar fyrir A-landslið karla. Hann er sá sem við verðum að hafa hvað bestar gætur í kvöld. Strákunum tókst vel upp með það í bikarúrslitaleiknum, og var það ekki síst þess vegna að dollan er nú geymd í Krikanum.

FH og Valur eiga það sameiginlegt frá þeim tíma sem liðið hefur frá bikarúrslitahelginni, að hafa tapað fyrir ríkjandi Íslandsmeisturum ÍBV. Sú staðreynd, og sigur Eyjamanna fyrir norðan í gær, gerir það að verkum að mikilvægi þess að FH vinni leikinn eykst til muna. Nú er forskot okkar manna á 5. sætið ekki nema 2 stig, og því þarf að viðhalda til að ná heimavallarrétti í úrslitakeppninni. Svo sannarlega keppikefli, því heima er best.

Arnar Freyr er algjör lykilmaður í liði FH, og verður í eldlínunni í kvöld / Mynd: Jói Long

FH-liðið hefur ekki unnið frá því að það hampaði bikarmeistaratitlinum, en í báðum leikjum hefði það svo sannarlega getað það. Það er ekki síst Eyjaleikurinn um síðustu helgi sem svíður, því að mati FH-inga voru þeir rændir sigrinum með lökum dómum og ójöfnum.

Við þurfum að halda áfram þeim hlutum sem við þó gerðum vel í þeim leik. Bjarni Ófeigur var til dæmis afar góður í Eyjum, og hann verður mikilvægur í kvöld gegn sínum gömlu félögum. Varnarleikurinn verður að vera þéttur, og þá oft kemur markvarslan í kjölfarið – en hún var ekkert til að hrópa húrra fyrir í síðasta leik. Þá verðum við að fækka brottvísunum frá því sem var í síðasta leik, hvort sem það var réttlátt eða ekki. Við megum ekki vera einum færri þriðjung úr leiknum, það má enginn við því.

Þá þurfum við stuðning ykkar í kvöld, kæru FH-ingar. Með fulla stúku af FH-ingum í bakinu líður strákunum okkar best. Svo er þetta líka bara svo ógeðslega gaman. Gæðahandbolti á fjölum Kaplakrika á sunnudagskvöldi, eins þráðbeint í æð og það gerist. Landinn bíður á tímaflakkinu í þetta sinn.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir