Upphitun: FH-Valur. Þriðji leikur!

Kaplakriki
Kl. 20.00.
Húsið opnar kl. 18.30.
— Ljósashow

— Andlitsmálun

— Leikhléaskot með Tómasi Meyer

— Árni Freyr fer yfir málin með Gumma Ped á FH-torginu fyrir leik

— FH-Mafían grillar Kjötkompanís-borgara fyrir leik

 

Jæja, ertu ekki orðin spenntur? Er ekki örlítið erfitt að einbeita sér í vinnunni, þegar tómar stundir gefast óma þrjú klöpp og svo FH í huganum og þú reynir að ákveða hvert af fáranlega mörgum mörkum Gísla Þorgeirs var flottast? Farin að athuga Fimmeinn.is og HBStatz oft á dag? Já? Gott, þú ert ekki einn um það. Öll FH fjölskyldan er á tánum eftir að strákarnir okkar unnu fyllilega verðskuldaðan sigur á Val á Hlíðarenda og eru þar með aftur komnir með heimleikjaréttin dýrmæta. Tilfinningin eftir fyrsta leikin var að stemningin og skriðþungin væri með hinu liðinu og það var gífurlega mikilvægt og erfitt verk að snúa því við. Það er nákvæmlega ekkert unnið ennþá (nema nátturulega deild og deildarbikar) en það er fullkomnlega skiljanlegt að menn séu farnir að vera bjartsýnir. FH hefur ekki verið svona nálægt því að vinna þann stóra í sex ár og kempum og krökkum er farið að klæja í fingurna að sjá það gerast aftur.

 

Munurinn á fyrri og seinni hálfleik síðasta leiks var einfaldlega að okkar menn sýndu sitt rétta andlit. Við vitum hvað við fáum þegar Valur kemur í heimsókn, þeirra leikur einkennist af frábærum varnaleik, óþolandi þolinmóðum sóknarleik og nokkrum leikmönnum sem geta unnið leiki upp á sínar eigin spýtur. En þegar okkar menn ná upp sínum besta leik eru þeir einfaldlega betri, sérstaklega sóknarlega. Svo ekki sé talað um að eftir tvo leiki er að okkar menn eigi heilan helling inni.

 

Það vita allir sem vita eitthvað hver okkar mikilvægasti maður í þessari rimmu hefur verið, hin átjan ára Gísli Þorgeir Kristjáns. Strákurinn hefur sprungið svakalega út og borið sóknina uppi á löngum köflum. Enga síður eru það Ásbjörn og Einar Rafn sem eru okkar markahæstu menn í úrslitakeppninni og verður spennandi að sjá þá mæta til leiks á morgun. Gísli er næstur á eftir þeim og svo koma hornamennirnir Óðinn og Arnar Freyr. Það er hinsvegar gaman að segja frá því að allir útleikmenn liðsins eru búnir að skora í það minnsta eitt mark í úrslitakeppninni. Aðalsmerki liðsins er liðheildin og menn á bekknum alltaf til staðar til leysa verkin sem koma upp þegar eitthvað er ekki að virka.

 

Að standa í stúttfullum Kaplakrika er forréttindi og eitt það besta sem hægt er að upplifa í Íslenskum íþróttum. Valsarar eru með hörku stuðningsmanna sveit og ljóst að það verður mikil stemning hjá þeim á pöllunum. Okkar verk er einfalt, mæta á staðinn, og styðja liðið af slíkum krafti að liðið okkar heyrir varla í hinni stúkunni. Þetta er tækifærið að taka frumkvæðið í einvíginu og komast í kjörstöðu til að klára frábæra þrennu í ár. Við vitum öll að liðið er tilbúið, þegar þeir spila sinn leik halda þeim engin bönd. Okkar verk er styðja þá af öllum lífsins sálar kröftum!

 

VIÐ. ERUM. FH!!!
-Ingimar Bjarni

augl.fh.valur.leikur3.aug2

Aðrar fréttir