Upphitun: FH – Valur U, sunnudaginn 19. janúar kl. 19:30

Afar mikilvægur leikur bíður stelpnanna okkar annað kvöld, en þá kemur lið Vals U í heimsókn í Krikann. Um er að ræða leik í 13. umferð Grill 66 deildarinnar, sem fór aftur að stað um síðustu helgi.

Baráttan um 2. sæti deildarinnar, sem að öllum líkindum gefur sæti í efstu deild þetta árið, er gríðarhörð. Lið FH leiðir þá baráttu um þessar mundir, og er í 2. sæti með 19 stig, en Selfyssingar narta í hæla stelpnanna okkar. Hvorugt þessara liða hefur efni á að misstíga sig.

Britney lék vel í síðasta leik, gegn Fram U / Mynd: Brynja T.

Leikur morgundagsins, gegn fyrrverandi lærimeyjum Jakobs Lárussonar í Val U, er verðugt verkefni. Um er að ræða gott lið og vel skipað, sem situr sem stendur í 6. sæti Grill 66 deildarinnar, 6 stigum á eftir okkar stelpum. Næstbesta U-lið landsins um þessar mundir, á því leikur enginn vafi.

Áberandi leikmaður í liði gestanna verður mjög líklega Ásdís Þóra Ágústsdóttir (Jóhannssonar), dóttir aðalþjálfara Íslands-, deildar- og bikarmeistara Vals. Þar er á ferðinni afar öflug rétthent skytta, sem er markahæst Valskvenna í vetur með 60 mörk í 8 leikjum. Systir hennar, Lilja Ágústsdóttir, hefur sömuleiðis átt gott tímabil með Valsliðinu, og er næstmarkahæst með 48 mörk í 12 leikjum.

Áhugavert verður að sjá, hver stendur í marki Valskvenna annað kvöld. Síðast þegar þessi lið leiddu saman hesta sína, seint í september síðastliðnum, var einn efnilegasti markvörður okkar Íslendinga milli stanganna. Sú heitir Andrea Gunnlaugsdóttir, og hennar þáttur varð ekki síst stór í því, að halda leiknum á Hlíðarenda jöfnum og spennandi allt til leiksloka.

Ragnheiður var markahæst okkar stelpna er liðin mættust síðast / Mynd: Brynja T.

Okkar stelpur leiddu þann leik allan tímann og unnu að lokum með tveimur mörkum eftir að hafa leitt með þremur mörkum í hálfleik, en munurinn hefði vel getað orðið meiri hefði Andreu ekki notið við í markinu. Hún hefur leikið 10 leiki með U-liði Valskvenna í vetur, en var ekki með þegar Valsliðið tapaði með 5 marka mun á Selfossi um síðustu helgi. Spurning er, hvort að annað verði upp á teningunum annað kvöld.

Ljóst er, að FH-stelpur verða að eiga góðan leik til að leggja þetta Valslið að velli. Þær verða að mæta ákveðnar til leiks, ekki síst í ljósi úrslita síðustu helgar. Tvö stig eru vel innan færis, en koma ekki án mikillar vinnu.

Við höfum orðið fyrir skakkaföllum, en þegar sú er staðan gefst tækifæri fyrir aðra leikmenn til að stíga upp og gera sig gildandi í enn meiri mæli. Maður kemur ávallt í manns stað, og þegar liðsheildin er til staðar þar að auki er ekkert sem þarf að óttast.

Handbolti er umfram allt annað liðsíþrótt. Og við FH-ingar eigum svo sannarlega gott lið.

Komdu í Krikann annað kvöld og veittu stelpunum okkar lið í stúkunni! Hver einasta rödd skiptir máli.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir