Upphitun: FH – Valur, undanúrslit Coca-Cola bikarsins, föstudaginn 24. febrúar 2017

FH – Valur í undanúrslitum bikarsins. Bæði lið sjóðandi heit, og allir með tröllatrú á verkefninu. Kunnulegt, ekki satt?

16831113_2025825237644542_7515205793939913469_n
Fyrir tveimur árum mættust þessi lið í einum mest spennandi bikarleik sem menn muna eftir. Ísak Rafnsson jafnaði leikinn þegar örfáar sekúndur voru eftir og endurtók svo leikinn þegar öll von virtist úti í framlengingunni. Að lokum fóru okkar menn með góðan sigur af hólmi og komust í úrslit þar sem þeir lutu í lægra haldi fyrir gríðarsterku liði ÍBV.

Staða liðanna í deildinni er svipuð, Valur er búið að vera jójó lið dauðans (orð þjálfara þeirra) í leikjum í vetur, en eru þó ekki nema tveimur stigum á eftir okkur. Þeir tryggðu sér farseðil í átta liða úrslit evrópska Áskorendabikarsins um síðustu helgi og á góðum degi eru þeir svakalegt lið. Okkar menn hafa mætt þeim tvisvar í vetur, í fyrri leiknum unnu FH með tveimur og í þeim seinni töpuðu okkar menn naumlega með einu.

En frá áramótum hefur ekki gengið jafn vel hjá Valsmönnum. Þeir hafa tapað þremur leikjum, gegn botnliðum Fram, Stjörnunnar og Akureyrar en á móti kemur árangur í Evrópu og bæði sigur á og jafntefli við topplið Aftureldingar. Á sama tíma hafa okkar menn verið að spila besta bolta landsins og ekki misst stig.

Þeirra markahæsti maður í vetur er Anton Rúnarson, sem hefur skorað 93 í deildinni, á meðan að okkar megin sitja Óðinn Þór og Einar Rafn báðir á 125 mörkum. Hinsvegar hafa þeir dreift markaskorun vel og eru með yfir 500 mörk í deildinni. Okkar menn slógu tóninn fyrir helgina með því að rústa Stjörnunni um síðustu helgi en Valur þurfti hinsvegar að fara í erfitt ferðalag til Belgrad. Vindurinn er klárlega í bak FH-inga en Valsliðið er einfaldlega stórhættulegt.

Valur er sigursælasta lið bikarkeppninar, með níu titla í nútíma útfærslu hennar. FH-ingar hafa hinsvegar ekki náð að grípa um bikarinn góða síðan 1994, sem er einfaldlega allt of langur tími. Margir eru farnir að hlakka til mögulegs Hafnarfjarðarslags í úrslitum, en Ásbjörn fyrirliði sagði að liðið væri með hugann hundrað prósent við leikinn í undanúrslitum. Þannig á það líka að vera. Eitt skref í einu. Úrslitaleikur er í húfi, en okkar menn eru staddir í núinu. Leikurinn í dag er úrslitaleikur upp á úrslitaleikinn stóra.

Verkefni okkar, stuðningsmannanna, er einfalt. Að mæta í höllina, vera í hvítu og styðja strákanna af öllum lífs og sálarkröftum til sigurs! Það er löngu kominn tími á að koma með þennan fallega bikar í Kaplakrika!
Við erum FH!

Ingimar Bjarni

Samstarfsaðilar feb 2017

Aðrar fréttir