Upphitun: FH – Víkingur, fimmtudaginn 14. mars kl. 18:00

Mikilvæg 2 stig eru undir í Grillinu í kvöld, þar sem stelpurnar okkar leitast við að sækja upp á við í baráttunni um umspilssæti.

Andstæðingur stelpnanna í kvöld, lið Víkings, situr sem stendur í næstneðsta sæti deildarinnar með 4 stig – 7 stigum á eftir liði Fjölnis, sem næst er þar fyrir ofan. Hefur liðið unnið 2 leiki í vetur, gegn Fjölni og Stjörnunni U, en tapað hinum 16. Síðasti sigurleikur Víkinga kom seint í október síðastliðnum, og því má búast við þeim ákveðnum í leik dagsins í dag. Þær ætla sér að stríða stelpunum okkar.

FH fór með sannfærandi sigur af hólmi þegar liðin mættust síðast, en sá leikur fór fram í Víkinni þann 12. nóvember síðastliðinn. Lokatölur voru 15-28 fyrir Hafnfirðinga. Ragnheiður Tómasdóttir fór fyrir stelpunum okkar í þeim leik og skoraði 6 mörk og þá voru þær Sylvía Björt Blöndal, Britney Cots og Hildur Guðjónsdóttir allar með 4 mörk.

Hið gamla stórveldi, Víkingur, hefur leikið í Grill 66 deild kvenna frá því að hún var sett á laggirnar fyrir tveimur tímabilum síðan, en þar áður liðu nokkur ár án þess að Víkingur væri með skráð lið í deildarkeppninni. Hefur liðið leikið undir stjórn Díönu Guðjónsdóttur, hins margreynda þjálfara, allt frá endurkomunni.

Gengið hefur verið upp og ofan. Á fyrsta tímabili sínu í 1. deildinni var Víkingur í næstneðsta sæti deildarinnar, en í fyrra náði liðið 6. sæti. Stigamunurinn þar á var hins vegar ekki mikill – 9 stig voru niðurstaðan fyrra árið, 11 stig hið seinna.

Hin eistneska Alina Molkova var algjör lykilmaður í liði Víkinga á þessum tveimur árum, og var meðal bestu leikmanna deildarinnar á heildina litið. Skoraði hún 11,3 og 9,9 mörk að meðaltali í leik á sínum tíma í treyjunni röndóttu. Það var því skiljanlega nokkur blóðtaka þegar hún ákvað að söðla um í sumar og ganga til liðs við Olísdeildarlið Vals, en með þeim varð hún síðan bikarmeistari um helgina. Skoraði t.a.m. 1 mark í úrslitaleiknum.

En, það er eins og alltaf er. Þegar lykilmaður fer er það annarra að stíga upp og taka á sig ábyrgð. Til þessa hefur það fallið í skaut línumannsins Rebekku Friðriksdóttur að gera það, en hún er markahæst Víkinga á tímabilinu til þessa með 76 mörk, en það gera 4,75 mörk að meðaltali.

Fossvogsliðið átti fínan leik í síðustu umferð, en það stóð þá vel í liði Gróttu á heimavelli. Seltirningar höfðu betur í lokin, og unnu þriggja marka sigur (18-21) eftir að munað hafði einu marki á liðunum í hálfleik (9-10). Það er því ljóst að ekki ber að vanmeta Víkinga. Það þarf að hafa fyrir sigri í kvöld.

Fanney var markahæst stelpnanna okkar á Hlíðarenda, en hún fór á kostum og skoraði 9 mörk / Mynd: Brynja T.

Sigur myndi líka gera afskaplega mikið fyrir stelpurnar okkar, það er nokkuð ljóst. Ekki síst, ef önnur úrslit verða okkur í hag. Með sigri getur lið FH farið upp að hlið Fylkis í 4. sæti deildarinnar, að því gefnu að Árbæingar tapi sínum leik – en þær taka á móti toppliði Aftureldingar í kvöld.

Stelpurnar hafa einmitt unnið tvo góða sigra í röð í deildinni, eftir að hafa tapað naumlega gegn Fylki í byrjun febrúar. Fyrst lögðu þær Gróttu að velli í Krikanum með 4 marka mun, og þá lögðu þær sterkt lið Vals U að Hlíðarenda með 5 mörkum. Sá sigur var ekki síst sætur fyrir þær sakir, að Valskonur léku okkur grátt þegar liðin mættust í fyrri umferðinni.

Það væri afskaplega gott að vinna í kvöld og framlengja sigurseríuna um einn leik, því í lokaumferðunum mætum við sterkustu liðum deildarinnar – fyrst ÍR á útivelli, svo Aftureldingu heima. Það sakar ekki að fara í þá leiki með þrjá sigurleiki á bakinu.

Við viljum koma á skriði inn í umspil um sæti í Olísdeildinni. Umspilið er ný keppni – allt önnur skepna en sú sem við höfum vanist í vetur. Allir geta unnið alla, og þar skiptir skriðþunginn mestu máli. Með stuðningi ykkar þá vinnum við tvö stór stig í kvöld, og leggjum grunninn að góðu gengi í því stóra verkefni sem framundan er.

Tilefnið til að mæta í Mekka er enn ríkara fyrir þær sakir, að í kvöld fer fram tvíhöfði. Stelpurnar ríða á vaðið með leik sínum gegn Víkingum, en þar á eftir mæta ungu strákarnir okkar grönnunum af Ásvöllum. Sannkölluð handboltaveisla! Ekki segja mér að það sé ekki lystugt, eftir bikar(meistara)helgina sem leið.

Kíkjum í Krikann og styðjum okkar fólk til sigurs.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir