
Upphitun: FH – Víkingur, sunnudaginn 4. febrúar 2018
Bara þrír deildarleikir eftir í Kaplakrika? Já svo er víst. Það eru ekki nema sjö deildarleikir eftir af tímabilinu sem hefur verið frábært en nú er komið að því að sigla þessu heim. Fjórtan stig í pottinum og næstu tvö þarf að hirða af Víking.
Eftir hálf eilíft landsleikjahlé héldu svart-hvítu hetjurnar út á Seltjarnes og minntu hressilega á sig. Ellefu marka sigur gefur góða mynd af seinni hálfleik en það tók engu að síður smá stund fyrir FH-inga að hrökkva í gang. Þeir spiluðu vel en náðu ekki alltaf þeim hæðum sem við höfum séð frá þeim í vetur. Þetta er að sjálfsögðu eðlilegt þegar sex vikur líða á milli leikja, smá ryð í mannskapnum en gott að ná að hrista það af sér. Við verðum án Gísla í febrúar en Arnar Freyr dettur vonandi aftur í hópinn á næstunni. Þegar heilt er á litið er liðið að koma ágætlega undan pásunni.
Veturinn hefur verið mótherjum okkar erfiður. Þeir komu inn um bakdyrnar í deildina þegar KR dró sig úr keppni og voru klárlega ekki búnir að vinna þá vinnu sem þarf til að koma upp í úrvalsdeild. Þeir hafa oft á tíðum sýnt frábæran anda en gæðin hefur vantað, og eru þeir nú eingöngu komnir með 5 stig. Þeir og Fjölnir eru jafnir í botnsætunum en Víkingur eru fyrir ofan vegna innbyrðisviðureignar. Þeir voru síðan svo óheppnir að fá fyrsta leik eftir hlé á móti sjóðandi heitu ÍBV-liði, þar sem þeir voru hreinlega teknir í bakaríið. Þeir eru samt ekki nema tveimur stigum frá Gróttu og þremur frá Fram og ljóst að þeir munu selja sig rándýrt þangað til þeir eiga engan séns á að halda sæti sínu í deild hina bestu. Síðasti leikur liðanna var veisla fyrir FH og martröð fyrir Víking, þeir munu mæta dýrvitlausir í leikinn og reyna að hefna þess.
Ef FH ætlar að halda áfram að verja deildarbikarinn er þetta algjör skyldusigur. ÍBV eru á hælunum á strákunum og það verður barátta fram á síðasta leik um titilinn. FH-vélin er búin að malla frábærlega í allan vetur en það sem skiptir mestu máli er að hirða dollurnar. Við stuðningsmenn þurfum að gera okkar, mæta í Krikann og styðja þá alla leið.
Við erum FH!
– Ingimar Bjarni