Upphitun: Fram – FH, N1-deild karla

Upphitun: Fram – FH, N1-deild karla

Á morgun hefja FH-ingar keppni í úrslitakeppni um sæti í úrslitakeppni N1-deildar karla. Formlega er þessi úrslitakeppni sem að ég tala um ekki til, en sú er raunin hjá liði FH; þeir þurfa nauðsynlega á sigri að halda til að komast í úrslitakeppnina. Mótherji FH-inga er lið Framara, sem að hefur verið á uppleið síðustu vikurnar. Það má því búast við hörkuviðureign tveggja hörkuliða.

Fram
Lið Framara hefur eins og áður segir verið á mikilli uppleið að undanförnu, en situr þrátt fyrir það í botnsæti N1-deildarinnar með 11 stig; jafnt Stjörnunni að stigum en einu stigi á eftir Gróttu. Framarar hafa unnið 5 leiki, gert eitt jafntefli og tapað 12 leikjum.

Eftir skelfilegt gengi fyrir áramót hafa Framarar gyrt sig í brók eftir áramót. Þeir hafa unnið sigur í öllum sínum viðureignum í 3. umferðinni, fyrir utan eitt naumt tap gegn Haukum.

Síðasti leikur Framara var gegn Akureyri þann 25. mars síðastliðinn. Þá léku þeir gegn Akureyri Norðan heiða og unnu góðan 5 marka sigur, 31-26.

Síðasti leikur liðanna
Liðin mættust síðast í Safamýrinni þann 4. mars síðastliðinn. Þá unnu Framarar eins marks sigur, 31-30, eftir jafnan og spennandi leik.

FH
FH-ingar sitja í 5. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 18 leiki, stigi á eftir HK og tveimur á eftir Val. FH-ingar hafa unnið 9 leiki, gert eitt jafntefli en tapað 8 leikjum.

Lið FH hefur fyrir leikinn tapað 3 leikjum í röð og verður því að vinna sigur gegn Frömurum ætli þeir sér að komast í úrslitakeppnina. Til þess verða þeir þó að eiga algjöran toppleik enda eru Framarar á góðu skriði í deildinni, hafa unnið allar sínar viðureignir í 3. umferðinni utan einnar.

Síðasti leikur FH-inga var gegn Gróttu í Krikanum þann 25. mars síðastliðinn. Ekki skal fara ítarlega í þann leik en FH lék langt undir getu og tapaði stórt, 23-30. Strákarnir ætla sér vafalaust sigur á morgun, undirbúningur liðsins fyrir leikinn hefur verið góður og því má búast við strákunum ákveðnum í Safamýrinni.

Við á FH.is viljum hvetja alla FH-inga til að fjölmenna í Safamýrina á morgun að styðja okkar menn. Strákarnir þurfa á stuðningi okkar að halda til að komast upp úr þessum djúpa öldudal sem að þeir eru staddir í um þessar mundir. Sért þú alvöru FH-ingur mætir þú í Safamýrina á morgun; klappar, stappar og öskrar liði FH til stuðnings. Leikurinn hefst kl. 19:30. Áfram FH!

Aðrar fréttir