Upphitun: Fram – FH, N1-deild karla

Upphitun: Fram – FH, N1-deild karla

Á morgun, sunnudaginn 6. mars, sækja FH-ingar Framara heim í Safamýrina í 16. umferð N1-deildar karla. Þar mætast stálin stinn, liðin í 2-3. sæti deildarinnar, og mun sigurlið leiksins sitja eitt og óáreitt í 2. sæti deildarinnar að leik loknum. Það er því mikið í húfi og liðin munu án alls vafa leggja allt í sölurnar til að landa sigri.

Fram
Framarar sitja í 2. sæti N1-deildar karla með 19 stig, jafnir FH-ingum að stigum en með betra markahlutfall. Þeir hafa leikið 15 leiki, unnið 9 þeirra, gert eitt jafntefli en tapað 5 leikjum.

Framarar hafa á þessu tímabili verið á svipuðu reiki og okkar menn – eiga sína frábæru leiki en eiga það til að detta niður á milli. Sóknarlega séð eru þeir virkilega góður, en þeir hafa skorað liða mest í deildinni á þessu tímabili. Þar að auki eru þeir nokkuð sterkir varnarlega séð og eiga flottan markmann í Magnúsi Gunnari Erlendssyni. Þeirra helstu leikmenn eru m.a.s. Haukamaðurinn Einar Rafn Eiðsson, Jóhann Gunnar Einarsson og Andri Berg Haraldsson, sem eins og allir vita var uppalinn í FH. Að mínu mati er þeirra sterkasti leikmaður þó Halldór Jóhann Sigfússon, lunkinn leikstjórnandi sem stýrir leik liðsins eins og herforingi. Hann getur skotið, fintað og lagt upp mörk á mann og annan. Skemmtilegur leikmaður sem hefur reynst Frömurum drjúgur það sem af er vetri.

Framarar hafa þó verið í dálítilli lægð að undanförnu, eða síðan þeir unnu Akureyringa á útivelli þann 12. desember síðastliðinn. Síðan þá hafa þeir leikið 5 leiki (þ.á.m. einn gegn FH, í Safamýrinni 2. febrúar) en unnið einungis einn leik. Síðasti leikur þeirra, gegn Aftureldingu, endaði með 6 marka tapi á heimavelli. Þeir munu því eflaust leitast við að ná sér í gang á nýjan leik með sigri gegn FH, og FH-ingar verða því að vera tilbúnir fyrir baráttuleik.

Fyrri leikir liðanna
Liðin mættust síðast í Safamýrinni þann 3. febrúar síðastliðinn og var þá hart barist. Liðin voru líkt og nú jöfn í 2-3. sæti, og mátti því búast við hörkuleik. Sú varð raunin, en liðin skildu að lokum jöfn að loknum miklum baráttuleik, 26-26. Þar áður höfðu liðin mæst í Krikanum en þar unnu Framarar 5 marka sigur, 33-38.

FH
FH-ingar eru jafnir Frömurum að stigum í 2-3. sæti deildarinnar með 19 stig, stigi meira en HK sem situr í 4. sæti og 2 stigum meira en Haukar, sem sitja í 5. sæti.

Stígandi hefur verið hjá FH-ingum og gott gengi hjá liðinu í undanförnum umferðum, séu töp fyrir norðan gegn Akureyri undanskilin. Varnarleikurinn hefur verið góður eftir innkomu Baldvins Þorsteinssonar og sóknarleikurinn verið góður, en þar hafa Ásbjörn Friðriksson og Ólafur Guðmundsson verið sérstaklega góðir. Ásbjörn var einmitt valinn í lið síðustu umferða í N1-deild karla um daginn, viðurkenning sem hann átti svo sannarlega skilið. En gott gengi hefur verið liðinu í heild að þakka, enda vinnast engir sigrar á einum til tveimur mönnum – allavega ekki til lengri tíma litið.


Ási hefur verið vægast sagt frábær í vetur

Síðasti leikur liðsins, gegn Akureyri í Krikanum, var vægast sagt mjög góður. Þar fúnkeraði liðið vel sem heild, enda unnu strákarnir sanngjarnan 7 marka sigur gegn toppliði deildarinnar. Ljóst er að ekkert minna dugir gegn liði Fram, enda mikið í húfi hjá Safamýrarpiltum – ef til vill meira en hjá norðanmönnum í leik FH og Akureyrar í Krikanum.</p

Aðrar fréttir