Upphitun: Fram U – FH, föstudaginn 21. september kl. 20:30

Stelpurnar okkar eiga aftur leik í Grill 66 deildinni annað kvöld, þegar þær leggja leið sína í Safamýrina til að etja kappi við lið Fram U. Eftir sárt tap gegn HK U í síðustu viku vilja FH-stelpur ólmar rétta úr kútnum, en verkefnið verður án nokkurs vafa krefjandi.

Ungmennalið Íslands-og bikarmeistara Fram hóf leik í deildinni með miklum látum í síðustu viku, en liðið bakkaði þá yfir nýfallið lið Gróttu með 10 marka mun. Lokatölur 25-15, eftir að Safamýrarstelpurnar höfðu leitt með 7 mörkum í hálfleik. Engin smá yfirlýsing á ferðinni þar. Á síðustu leiktíð hafnaði liðið í 8. sæti deildarinnar, og var þeim spáð í sama sæti fyrir mót. Greinilegt er, að Framarar hafa engan áhuga á því.

Unglingastarfið hefur verið í miklum blóma hjá Fram síðastliðin ár og hefur 3. flokkur kvenna t.a.m. orðið bikarmeistari 3 ár í röð. Stærstu póstar þessa U-liðs í dag eru því stelpur sem notið hafa gífurlegrar velgengni í yngri flokkum með félaginu. Raunar varð 3. flokkur bæði Íslands-og bikarmeistari á síðasta keppnistímabili, og í því liði voru mikil efni.

Sylvía Björt Blöndal skýtur hér að marki í úrslitaleik FH og Fram um Íslandsmeistaratitilinn í 3. flokki kvenna síðastliðið vor. Þar máttu okkar stelpur sætta sig við tveggja marka tap. / Mynd: Brynja T.

Lena Margrét Valdimarsdóttir er ein þeirra, en hún var atkvæðamest í liði Fram gegn Gróttu með 8 mörk skoruð. Hún var einmitt langmarkahæst leikmanna Fram U á síðasta tímabili. Þá skoraði hún 97 mörk í 12 leikjum spiluðum, eða 8,08 mörk að meðaltali í leik. Það borgar sig því varla, að hundsa þá ógn sem af henni stafar. Erna Guðlaug og Svala Júlía Gunnarsdætur skoruðu 4 mörk hvor, en þær komu einnig úr þessum 3. flokki síðasta keppnistímabils.

Allar þær stelpur (að einni undanskilinni) sem komu við sögu í liði Fram U í fyrsta leik tímabilsins eiga það sameiginlegt, að hafa leikið eitthvert hlutverk í ungmennaliði félagsins á síðustu leiktíð. Sumar þeirra, t.a.m. Lena Margrét, eru farnar að banka hátt á dyrnar hjá aðalliði félagsins. Þetta eru efnilegar stelpur, einu árinu eldri, sem eru vanar að spila saman og – það sem meira er – eru vanar því að vinna leiki saman, sem er þáttur sem ekki má vanmeta. Verkefni morgundagsins verður því án nokkurs vafa erfitt.

Ungmennaliðin eru almennt skrýtin skepna, það er aldrei að vita hvernig þau mæta til leiks. Allra síst í byrjun móts. Að þessu sinni er andstæðingurinn hins vegar nokkurn veginn þekkt stærð. Þetta er gott lið. Stelpurnar okkar hafa flestar mætt þeim í yngri flokkunum, og á síðustu leiktíð unnu okkar stelpur báða leiki liðanna í Grill 66 deildinni, fyrst með fjögurra og síðan tveggja marka mun. Nú er að byggja ofan á því.

Ragnheiður Tómasdóttir fór vel af stað í FH-búningnum síðastliðinn föstudag / Mynd: Brynja T.

Það duldist engum sem sá FH-stelpurnar spila síðastliðinn föstudag, að þar fór gott lið sem spilaði vel undir getu. Hvort um vanmat hafi verið að ræða er ekki gott að fullyrða, en burtséð frá því er óhætt að segja að okkar konur eiga mikið inni.

Það örlaði á gæðum liðsins á köflum, en samfella þessa var ekki nægilega löng. Nú hefur gefist vika til æfinga, endurskoðunar og samstillingar, og verður spennandi að sjá útkomuna annað kvöld.

Við viljum sjá meira af því góða. Við viljum sjá nýju stelpurnar komast enn betur inn í hlutina, við viljum fá meira af flottum tilþrifum þeirra sem fyrir voru. Deildarkeppnin í vetur verður þroskasaga.

Fyrsta kaflanum lauk með niðurdúr, en látum annan kafla vera þann sem kom skriði á hlutina. Stelpurnar hafa æft vel í vikunni, og með góðum stuðningi ykkar mun afrakstur þeirrar vinnu sjást á vellinum.

Annað kvöld, Safamýri, 20:30. Styðjum okkar stelpur til sigurs!

Við erum FH!

 

 

Aðrar fréttir