
UPPHITUN FYRIR FH – LAHTI FRÁ ÁRNA GRÉTARI
Ef ég væri kynnir í Eurovision myndi ég kalla Good evening Europe og klæða mig í jakkaföt fyrir þá veislu sem verður í Kaplakrika kl. 19:15 annað kvöld. Það eru frændur okkar og Finnarnir í FC Lahti sem mæta sprækir í heimsókn, staðráðnir í að bæta fyrir skellinn sem þeir fengu í fyrri leik liðanna. Finnland hefur reyndar ekki riðið feitum hesti í Eurovision síðan Lordi sungu Hard Rock Hallelujah en sagan segir að framkvæmdastjóri FC Lahti hafi sérstaklega beðið Anton Ingi Leifsson að spila Lordi í hálfleik. Okkar maður svaraði auðvitað bara „No we will play Botnleðja,“ og ekki orð um það meir.
FC Lahti kemur frá borginni Lahti sem er 8. stærsta borg þeirra Finna með tæplega 120 þús. íbúa. Liðið var stofnað á hinu herrans ári 1996 og hefur helst getið sér til frægðar að hafa finnsku hetjuna Jari Litmanen innan sinna raða á árunum 2004 og aftur 2009-2010. Í dag er leikmannahópur liðsins að mestu skipaður heimamönnum þótt einnig megi finna spilara frá löndum á borð við Brasilíu, Sierra Leone og Afghanistan. Í fyrri leiknum gegn FH lék liðið með leikkerfinu 4-2-3-1 en þeir hljóta að spila meira sóknarþenkjandi annað kvöld.
Þeir hafa verið í þónokkru brasi í deildinni heimafyrir, og hafa líkt og við FH-ingar gert of mörg jafntefli. Þeir sitja nú í 6. sæti deildarinnar með 29 stig eftir 18 leiki. Þeir hafa tapað tveimur leikjum í röð þegar þetta er ritað. Það er þó alveg ljóst að Finnarnir verða sýnd veiði en ekki gefin en eins og frændi minn og pylsusalinn Petur Vidarsson segir í Mogganum í dag þá var tapið gegn FH í síðustu viku fyrsta tap FC Lahti á heimavelli í Evrópuleik.
FH hefur einu sinni áður mætt finnsku liði í Evrópudeildinni, en þá fengum við SJK í fyrstu umferð árið 2015. Fimleikafélagið sigraði báða leikina 1-0. Þess má til gamans geta að SJK hafa enn ekki jafnað sig á þeirri útreið og sitja nú í 9. sæti finnsku VEIKKAUSLIIGA deildarinnar. Raunar var fyrirliði SJK svo hrifinn af FH að hann fullyrti í fjölmiðlum eftir leik að „FH gæti verið í toppbaráttunni í Finnlandi“. Þá fannst honum sjálfur draumurinn Kassim Doumbia vera besti maður FH. Ekki töluð vitleysan þar. Sjá hér: http://www.visir.is/…/fyrirlidi-sjk–fh-gaeti-verid-i-toppb…
Það hefur verið mikill meðvindur með (flestum) íslensku liðunum í Evrópu í sumar og við stefnum á að halda uppteknum hætti annað kvöld. FH liðið hefur áður verið grátlega nálægt því að gera einhverja alvöru hluti í Evrópu og leikurinn annað kvöld mun færa okkur skrefinu nær því markmiði.
Leikurinn hefst klukkan 19:15. Á FH-pallinum verður fjör klukkutíma fyrir leik. Þar verða grillaðir hamborgarar, Wingmann vagninn á svæðinu ásamt útibúi frá Hafís. Þjálfarar í yngriflokkum verða með knattþrautir við pallinn.
Allir á völlinn og áfram FH! #ViðerumFH
Árni Grétar Finnsson