Upphitun: Haukar – FH, 12. september 2018

Ég veit ekki alveg hver sá um að raða upp fyrstu umferð í Olís-deildinni, en sá hatar ekki grannaslagi. KA-Akureyri, Fram-Valur og að sjálfsögðu stærsti leikurinn í handboltanum: FH-Haukar. Strákarnir okkar hefja leik í Olís-deildinni í ár á móti erkifjendunum, þvílík endemis veisla.

Andstæðingurinn – Haukar.

Það er ekkert leyndarmál að síðasta tímabil var gífurleg vonbrigði við Ástjörn. Liðið endaði í fimmta sæti í deildinni, datt út í átta liða úrslitum Íslandsmótsins og undanúrslitum bikarsins. FH vann báðar viðureignir liðanna og verður sigurinn í Kaplakrika lengi í minnum hafður:

Þeir hafa brugðist við þessu með því að sækja feitan bita, en spurninginn er hvort sá biti geti lyft þeim upp í toppbaráttuna. Það fer svolítið eftir því hvort þeir hafi í raun verið að spila undir getur í fyrra. Pressan er mikil eftir tvö mögur tímabil og ef þeir koma ekki á fullu inn í tímabilið mun hún bara aukast. Þeir hafa litið óþolandi vel út á undirbúningstímabilinu, en spurning er hvort það gengi muni haldast inn í alvöruna.

Okkar menn – FH

„Mesta blóðtaka sem sést hefur hjá einu liði“ hefur sumarið hjá okkar mönnum verið kallað, risabitar horfnir á braut og liðinu spáð ýmist fimmta eða sjötta sæti af spekúlöntum. Er ekki best bara að gefast upp strax? Einmitt. Ekki f****** séns. Þetta lið hefur vanið sig á að senda sokka hingað og þangað síðustu tvö ár og mun gera það áfram.

Inn í liðið eru komnir hrikalega spennandi leikmenn, það eru nokkrar eldflaugar að koma upp úr yngri flokkunum og fyrir eru nokkrir af reynslumestu leikmönnum deildarinnar. Það mun mikið mæða á þeim síðastnefndu fyrstu vikurnar á meðan liðið spilar sig saman.

Liðið er þegar búið að spila tvo keppnisleiki í vetur, einvígi gegn Króatíska liðinu Dubrava, en það verkefni var leyst fagmannlega af hendi. Helst ber að nefna að tveir af nýju mönnunum, Bjarni og Birgir Már skoruðu samtals 26 mörk í þessum tveim leikjum, það er virkilega erfitt að peppast ekki upp við að sjá þá koma svona inn í liðið. Þeir koma vonandi jafn hressir inn í leikinn á Ásvöllum.

FH-ingar þurfa að finna taktinn og það hratt fyrir þetta langa tímabil. Á löngum köflum í Evrópuleikjunum spiluðu þeir þrusu handbolta, en duttu aðeins niður inn á milli. Ekkert óeðlilegt við það og munu fleiri lið glíma við sama vandamál í vetur.

Leikurinn sjálfur.

Ef FH væri nýbúið að vinna meistaradeildina og Haukar komnir í utandeild, myndi ég samt kalla þetta erfiðan leik. Bæði lið munu mæta dýrvitlaus og það er ekkert í boði að vera ryðgaður eftir sumar og sól. Við vitum öll hvað þessi leikur þýðir, við vitum öll hversu hrikalega sætt það er að mæta á Ásvelli og ná í tvö stig og við vitum öll hversu miklu máli stuðningur úr stúkunni skiptir. Þetta tímabil hefur allt að bera til að vera frábær skemmtun, skellum okkur í Schenker-höllina og byrjum það með trompi.

Nú og alltaf,

VIÐ ERUM FH

-Ingimar Bjarni

Aðrar fréttir