Upphitun: HK – FH, 9. apríl 2019 kl. 19:30 | Umspilið hefst í kvöld!

Þá er komið að því. Sá tími tímabilsins, sem við öll – stuðningsmenn, aðstandendur, þjálfarar og leikmenn – höfum beðið eftir. Umspilið um sæti í Olísdeildinni hefst í kvöld, en þá halda stelpurnar okkar í Digranesið og mæta liði HK.

Lið HK hefur góða reynslu af þessu umspili. Leið þess í Olísdeildina á síðasta tímabili lá í gegnum það, þar sem að HK-ingar lögðu ÍR og síðan Gróttu að velli. Þann veturinn hafði liðið leikið vel, og endaði í 2. sæti Grill 66 deildarinnar, en í vetur hefur það ekki átt jafn góðu gengi að fagna.

Næstneðsta sæti Olísdeildarinnar varð reyndin nú. HK-ingar enduðu með 9 stig – 6 stigum á eftir Stjörnunni í sætinu fyrir ofan, og 1 stigi meira en botnlið Selfoss fékk í vetur.

Þær áttu þó alveg sína spretti, Kópavogsstelpurnar. Þá sérstaklega fyrri part vetrar. Í annarri umferð fóru þær t.a.m. til Vestmannaeyja og lögðu þar sterkt lið ÍBV að velli, 21-22. Þá unnu þær nágranna okkar í Haukum nú í marsmánuði. Í sterkri Olísdeild má hins vegar lítið út af bregða, og því fór sem fór.

Lið HK er skipað mörgum góðum leikmönnum, en einn leikmaður stóð óumdeilanlega upp úr í vetur. Það er Sunnlendingurinn Díana Kristín Sigmarsdótir, hægri skyttan öfluga, sem skoraði 108 mörk í 20 leikjum í vetur og var markahæst í Kópavogsliðinu. Sú kann, og hefur alltaf kunnað, þá list að bomba á markið. Hana verðum við að stoppa í þeim leikjum sem framundan eru.

Einnig eru í liðinu tveir leikmenn sem fengið hafa tækifæri með A-landsliði kvenna í vetur. Það eru hornamaðurinn Sigríður Hauksdóttir, sem er af gríðargóðum handboltaættum fyrir utan það að vera sjálf frambærilegur leikmaður, og svo Berglind Þorsteinsdóttir. Sú síðarnefnda er afar öflugur varnarmaður, og einnig prýðileg vinstri skytta.

Berglind Þorsteinsdóttir hefur verið viðloðandi A-landslið kvenna að undanförnu. Hún framlengdi samning sinn við Kópavogsliðið nýlega. / Mynd: HK Handbolti á Facebook

HK-liðið er vel skipað, og það hefur góða reynslu af þessum aðstæðum. Þær komu, sáu og sigruðu í fyrra. En við getum skákað þeim – það er ekki nein spurning í mínum huga.

Til þess þurfa stelpurnar okkar að vilja þetta meira, heldur en stelpurnar þeirra. Við, sem félag, þurfum að vilja þetta meira heldur en HK. Við þurfum að sýna það í verki, bæði innan vallar og utan, að FH á heima í Olísdeildinni.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að við sjáum í þessum leikjum þá hlið á FH-liðinu sem best er. Þetta er nýtt mót, nýtt upphaf. Þar fyrir utan, þá höfum við nákvæmlega engu að tapa og allt að vinna.

Pressan er öll á HK. Það er búist við þeim í efstu deild að ári, eftir einvígin í umspilinu. Handkastið spáði því, og ef fleiri spekingar myndu spá í spilin væri niðurstaðan eflaust sú sama.

Stelpurnar okkar verða grjótharðar á velli í kvöld. Annað er ekki í boði. / Mynd: Brynja T.

Það er okkar, að láta þessa spá falla dauða og ómerka. Við höfum stelpur sem geta skorað mörk, við spilum hörkuvörn sem lið og við eigum slatta af vörðum boltum á milli stanganna í markvörðum okkar. Þótt stöðugleikinn hafi verið af skornum skammti á köflum á þessu tímabili, þá leikur enginn vafi á því hvað þetta lið getur á góðum degi.

Hugsið: bikarleikurinn gegn ÍR í Breiðholti, deildarleikurinn gegn ÍR í Breiðholti, síðasti deildarleikur gegn Aftureldingu á löngum köflum. Sú útgáfa FH-liðsins, er sú sem getur lagt HK að velli. Ég tala nú ekki um, ef stelpurnar fá alvöru stuðning úr stúkunni. Ef þær finna að við stöndum á bakvið þær.

Kvöldið í kvöld í Digranesi, svo Krikinn á föstudag. Gefum allt okkar í þetta, og sjáum hvert það skilar okkur. Þau skora jú sem þora.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir