Upphitun: Stjarnan – FH, föstudaginn 11. september kl. 17:45 | Fyrsti í Olís hjá stelpunum okkar!

Loksins, loksins. Um of langa hríð höfum við staðið utandyra, verið niðri, horft inn úr kuldanum eða upp úr kjallaranum. Fjögur ár, nánar tiltekið, eru liðin síðan að við FH-ingar áttum síðast lið í Olísdeild kvenna. Þeirri bið lauk í vor, og í kvöld stíga stelpurnar okkar sín fyrstu skref á stóra sviðinu.

Stjarnan úr Garðabæ er mótherji stelpnanna í þessum fyrsta leik okkar í Olísdeildinni. Þar er á ferðinni lið sem ætlar sér ekkert annað en titilbaráttu í vetur. Í sumar hafa fjórir leikmenn gengið til liðs við Stjörnuna eftir veru í atvinnumennsku, en það eru ásamt landsliðskonunum Helenu Rut Örvarsdóttur og Evu Björk Davíðsdóttur þær Anna Karen Hansdóttir og Liisa Bergdís Arnarsdóttir. Fyrir hitta þær sterkan kjarna leikmanna, sem inniheldur meðal annars kempuna og Haukagoðsögnina Hönnu G. Stefánsdóttur og hina öflugu Sólveigu Láru Kjærnested.

Er mótið var flautað af í marsmánuði voru Stjörnukonur í 3. sæti deildarinnar, 9 stigum á eftir liði Vals sem var í 2. sæti. Þær voru ,,bestar af restinni“, ef svo má segja. Samkeppnin hefur hins vegar harðnað á toppnum, með viðskiptum Vestmannaeyinga og Akureyringa í sumar. Þær mæta til leiks í kvöld vel meðvitaðar um það, til hvers er ætlast af þeim.

Lið FH hefur tekið nokkrum breytingum frá síðustu leiktíð. Ragnheiður Tómasdóttir leikur ekki með okkur í vetur, þar sem hún er farin í læknanám á erlendri grundu. Embla Jónsdóttir verður einnig erlendis í vetur, en hún verður á láni hjá Frisch Auf Göppingen í Þýskalandi. Þá eru þær Dröfn Haraldsdóttir og Diljá Sigurðardóttir hættar. Þar eru stór skörð hoggin, en við treystum þeim stelpum sem fyrir eru fullkomlega til að stíga enn frekar upp og fylla upp í þau.

Britney Cots mun leika stórt hlutverk í liði FH í vetur / Mynd: Brynja T.

Þá hafa gengið til liðs við okkur fimm nýjir leikmenn, sem við berum miklar væntingar til. Leikstjórnandinn Zandra Jarvin kom til okkar frá Spårvägen í Svíþjóð, en hún á að baki leiki með unglingalandsliðum Svíþjóðar. Skyttan Hildur Guðjónsdóttir endurnýjaði kynnin við okkur og sneri aftur frá Stjörnunni, og markvörðurinn Írena Björk Ómarsdóttir skipti sömuleiðis til okkar frá Garðabænum. Þá fengum við til okkar hina rétthentu Emilie Vågnes Jacobsen frá Ålesund í Noregi og Emmu Havin Sardarsdóttur frá Gróttu, en hún er örvhent skytta.

FH-liðið mætir ferskt til leiks eftir undirbúningstímabilið, en þar gafst gott tækifæri til þess að mæla liðið upp við önnur lið deildarinnar. Sérlega jákvæð voru teiknin úr æfingaleikjum gegn HK og Stjörnunni, sem unnust báðir, og þá stóðu stelpurnar afar vel í sterku liði Vals. Stór skellur gegn KA/Þór á Opna Norðlenska mótinu sýndi hins vegar að margt má enn bæta, sem er ekkert nema eðlilegt (raunar bökuðu Norðankonur Íslandsmeistara Fram í Meisturum meistaranna nokkrum dögum síðar, en það er önnur saga.)

Í upphitunarþætti Seinni bylgjunnar fyrir Olísdeildina var stelpunum okkar spáð neðsta sæti deildarinnar á tímabilinu. Spekingar þáttarins viðurkenndu hins vegar fúslega, að þær vissu takmarkað um liðið okkar. Fyrir þeim erum við óskrifað blað. Það góða við óskrifuð blöð er, að á þau má rita hvað sem er. Við getum og viljum afsanna þessa spá með góðum leik í vetur, og með góðum stuðningi úr stúkunni er ég viss um að það er hægt. Baráttan byrjar núna.

Leikur dagsins er í Mýrinni (TM-Höllinni) góðu í Garðabæ, og hefst kl. 17:45. 200 manna fjöldatakmörkun er á leikinn og geri ég þá kröfu að við FH-ingar gerum allt til að tryggja, að þar verði svarthvítur meirihluti. Forsala miða fer fram í Ísbúð Garðabæjar (í sama kjarna og Hagkaup/Jói Fel/Apótek Garðabæjar) í dag. Þau okkar sem ekki ná miða, geta horft á leikinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Innan vallar sem utan, sýnum hver við erum. Sýnum að við erum mætt.

Við erum FH!

– Árni Freyr

Aðrar fréttir