Upphitun: Sunnudagstvíhöfði! FH – Fjölnir kl. 17:00, FH – ÍR kl. 19:30

Á morgun er boðið upp á sunnudagstvíhöfða í Kaplakrika, þar sem bæði okkar lið eiga fyrir höndum afar mikilvæg og verðug verkefni.

Stelpurnar ríða á vaðið kl. 17:00, en þá hefst leikur þeirra gegn liði Fjölnis í 17. umferð Grill 66 deildarinnar. Þann leik verða FH-stelpur að vinna til að viðhalda forskoti sínu í 2. sæti deildarinnar, en þarna mæta þær einmitt liði sem reynst hefur hjálplegt í því í vetur.

Lið Fjölnis er í 8. sæti deildarinnar með 12 stig, rétt fyrir neðan miðja deild. Fimm sigra hefur liðið unnið, gert tvö jafntefli og tapað níu leikjum. Það er svosem ekki í frásögur færandi, nema fyrir einn athyglisverðan punkt: Tveir þeirra sigra, sem Fjölnir hefur unnið, hafa komið gegn sterku liði Selfoss – okkar helstu keppinautum um sæti í Olísdeildinni.

Emilía Ósk er sívaxandi í sínum leik / Mynd: Brynja T.

Fyrri leik Fjölniskvenna og Selfyssinga lauk með 7 marka sigri Fjölnis, og það á Selfossi. Selfyssingar virtust ákveðnir í að hefna sín í síðari leik liðanna, sem fram fór í síðustu umferð, og leiddu með 5 marka mun í hálfleik. En allt kom fyrir ekki. Fjölnisstelpur framkvæmdu ótrúlegan viðsnúning í síðari hálfleik, og unnu leikinn síðan á lokasekúndunum. Eins marks sigur, Fjölnistvenna yfir Selfossi í vetur.

Við kunnum þeim að sjálfsögðu bestu þakkir fyrir, en ef það er eitthvað sem þessir leikir sýna, þá er það að Fjölnisliðið ber að varast og taka alvarlega. Við megum ekki misstíga okkur á sama kanti. Það er mögulegur ökklabrjótur. FH-liðið vann viðureign liðanna örugglega í fyrri umferðinni (17-26, 7-11 í hálfleik) en það telur ekki fyrir neitt nú.

FH-stelpur sýndu mikla seiglu í umferðinni sem leið, er þær lögðu ÍR að velli í Breiðholti. Þær héldu ró sinni í erfiðum leik, og innbyrtu tvö stig. Það er styrkleikamerki, þegar lið sem að vanist hefur því að leggja önnur lið nokkuð örugglega að velli yfir veturinn brotnar ekki þegar á móti blæs. Það ber merki um þroska, og kemur til með að nýtast okkur á morgun. Við tökum það með okkur í slaginn.

Í síðari leik morgundagsins mæta strákarnir okkar ÍR-ingum, í leik sem hefst kl. 19:30. Hér er um sannkallaðan stórleik í toppbaráttunni að ræða, en liðin eru fyrir umferðina jöfn að stigum í 4-5. sæti deildarinnar.

Strákarnir hans Bjarna Fritzsonar hafa leikið vel í vetur og verið við toppinn allt frá því að boltinn fór að rúlla í haust. Um sterkt lið er að ræða, sem fékk réttu púslin inn í sumar, og hefur fyrir vikið gert sig meira gildandi í efri hlutanum en hefur verið síðustu ár. ÍR-ingar hafa vaxið mjög.

Breiðhyltingar hafa byrjað árið þokkalega. Liðið vann afgerandi sigra á KA-mönnum (34-22) og Stjörnunni (26-33), en fjögurra marka tap gegn Fram í síðustu umferð svíður eflaust töluvert. Þeir vilja koma sér aftur á sigurbraut, og munu því mæta ákveðnir til leiks í Krikann annað kvöld. Þeir eiga jú líka harma að hefna, frá því í Austurbergi fyrr í vetur.

Es Döhlert! Phil er búinn að vera frábær það sem af er ári. / Mynd: Jói Long

FH átti einn sinn besta leik í vetur þegar liðin mættust í áðurnefndum leik undir lok októbermánaðar. Var fyrri hálfleikurinn einkum stórkostlegur. Ellefu (!) marka forskot hafði FH-liðið í hálfleik, 8-19, og var leikurinn því nánast búinn þegar liðin gengu til búningsherbergja. ÍR-ingar löguðu stöðuna þegar á leið, en lokastaðan var engu að síður sannfærandi, 27-32. Þetta vilja ÍR-ingar ekki endurtaka, það er á hreinu.

FH-liðið hefur litið afar vel út eftir áramót, sé einn hálfleikur undanskilinn. Við höfum unnið sanngjarna sigra á góðum liðum. Varnarleikurinn hefur litið vel út, við fáum framlag víða að í sókninni og þá hefur markvarslan verið í hæsta gæðaflokki. Við virðumst því (vonandi) vera að toppa á hárréttum tíma.

Þremur stigum munar á okkur og toppliði Hauka um þessar mundir. Jú, vissulega eru sjóðheitir Valsarar og (volgir?) Mosfellingar þar á milli, en það eru allar forsendur til staðar til að hægt sé að gera alvöru árás á toppsætið. Tökum einn leik í einu, og hver veit hvað skeður.

Við þurfum á öllu okkar að halda. Inni á velli þarf fólkið okkar að vera upp á sitt besta til að vinna sína sigra, og við í stúkunni þurfum að styðja þétt við bakið á þeim. Mætum og styðjum allt okkar besta fólk, frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.

Við erum FH!
– Árni Freyr

Aðrar fréttir