Upphitun: Valur – FH, fimmtudaginn 10. nóvember kl. 19:30

Olísdeildin fer aftur af stað annað kvöld eftir landsleikjahlé, og það með látum. Strákarnir okkar heimsækja þá lið Vals að Hlíðarenda, en fyrir umferðina eru liðin jöfn að stigum í 2-4. sæti ásamt Selfossi með 10 stig.
 –
Valur
Tímabilið hjá Hlíðarendapiltum hefur verið keimlíkt því sem á hefur gengið hjá liði FH í vetur, að því leytinu til að skipst hafa á skin og skúrir. Eftir tap í fyrstu þremur leikjum tímabilsins unnu Valsmenn góðan sigur á Haukum heima fyrir, sem kom þeim á mikinn skrið. Fimm leiki unnu Valsmenn í röð, og komu sér þægilega fyrir í efri hlutanum. Þeir máttu vissulega sætta sig við tap í síðasta leik í deildinni, gegn toppliði Aftureldingar, en sá leikur tapaðist naumt. Valsmenn hafa sýnt og sannað að þeir eru með allra bestu liðum deildarinnar um þessar mundir og það er því alvöru verkefni að sækja tvö stig í sarp þeirra.
 –
Anton Rúnarsson hefur reynst mikill fengur fyrir Valsmenn og verið algjör lykilmaður í sóknarleik liðsins. Hið sama má segja um Króatann Josip Grgic, sem missti leik FH og Vals í 1. umferð vegna meiðsla. Hann hefur komið sterkur inn í leik Valsliðsins, og það verður að hafa góðar gætur á honum eigi sigur að vinnast.
 –
Markahæstu leikmenn Vals það sem af er tímabili eru:
Anton Rúnarsson, 46 mörk í 9 leikjum, 5.11 að meðaltali í leik.
Josip Juric Grgic, 27 mörk í 6 leikjum, 4.5 að meðaltali í leik.
Sveinn Aron Sveinsson, 36 mörk í 9 leikjum, 4.0 að meðaltali í leik.
 –
Fyrri viðureign liðanna
FH 27-25 Valur, Kaplakrika, 11. september 2016 Í fyrstu umferð Olísdeildarinnar mættust liðin tvö í Krikanum að rúmlega 1100 manns viðstöddum og höfðu strákarnir okkar þar sigur af hólmi í góðum leik. Í sínum fyrsta deildarleik fyrir félagið varð Óðinn Ríkharðsson markahæstur í liði FH-inga með 6 mörk skoruð, líkt og fyrirliðinn Ásbjörn Friðriksson. Sveinn Aron Sveinsson, hægri hornamaður Valsmanna, varð þó markahæstur á vellinum. Hann skoraði 11 mörk.
 –
FH
Í síðasta leik fyrir landsleikjahlé fóru FH-ingar norður fyrir heiðar og léku gegn Akureyri í KA-heimilinu. Okkar menn höfðu frumkvæðið lengst af í leiknum, en heimamenn börðust vel fyrir sínu og náðu að kreista út mikilvægt jafntefli á síðustu mínútum leiksins.
 –
FH-ingar hafa oft leikið betur en þeir gerðu gegn liði Akureyrar, en eitt stig var þó sannarlega betra en ekkert á erfiðum útivelli. En betur má ef duga skal – ætli strákarnir okkar sér að leggja Valsmenn að velli öðru sinni í vetur verða allir leikmenn liðsins að vera reiðubúnir til að stíga upp. Markaskor FH-liðsins dreifðist lítið fyrir norðan, en 5 leikmenn liðsins sáu um að skora mörkin 24.
 –
Markahæstu leikmenn FH það sem af er vetri eru: Óðinn Þór Ríkharðsson, 61 mark í 9 leikjum, 6.78 að meðaltali í leik. Einar Rafn Eiðsson, 60 mörk í 9 leikjum, 6.67 að meðaltali í leik. Jóhann Birgir Ingvarsson, 31 mark í 9 leikjum, 3.44 að meðaltali í leik.
 –
Með þéttum varnarleik og öguðum sóknarleik eiga strákarnir okkar svo sannarlega fullt erindi í stigin tvö á Hlíðarenda. Það vita þeir vel. Góður stuðningur FH-inga í stúkunni myndi svo sannarlega hjálpa til í þeirri baráttu, og viljum við á FH Handbolti hvetja alla til að mæta í Valshöllina annað kvöld kl. 19:30 og leggja strákunum okkar lið! Hirðum stigin tvö og stiplum okkur inn af alvöru í baráttunni um efstu sætin.
 –
Við erum FH!
 –
-Árni Freyr
helstu2

Aðrar fréttir