Valsarar hefndu fyrir bikartapið í gærkvöldi

Oj bara. Þetta var ekki gaman. Í gærkvöldi komu Hlíðarendapiltar í heimsókn í Kaplakrika og hefndu sín fyrir bikarúrslitaleikinn fyrir nokkrum vikum. Okkar menn hafa oft spilað betur en í gær og munu væntanlega greina það sem miður fór fyrir úrslitakeppnina.

Gangur leiksins.

Valsarar komu aðeins ákveðnari inn í leikinn en hvorugt liðið var að sýna sínar bestur hliðar. Varnarleikur og markvarsla var engin til að byrja með, en eftir korter var staðan 10-8 fyrir Val. Megnið af ógn FH-inga var að koma frá Ása, bæði mörk og stoðsendingar.

Eftir korter hófst langur kafli þar sem hvorugt liðið náði að skora. Það liðu átta mínútur úr stöðunni 10-8 og þar til að að FH-ingar minnkuðu muninn í eitt mark. Út seinni hálfleikinn voru okkar menn örlítið sterkari en Valsarar. Þegar lítið var eftir af hálfleiknum sýndu FH-ingar sama karakter og í úrslitum bikarsins, skoruðu þrjú síðustu mörk hálfleiksins og voru komnir yfir í fyrsta sinn í leiknum.

Ef leikurinn hefði unnist myndi ég lýsa seinni hálfleik sem virkilega skemmtilegum. Okkar menn juku muninn í þrjú mörk og varnarleikurinn small. FH-ingar áttu séns á að komast í fjögurra marka forystu en skotið frá Freysa var framhjá, sem er ansi sjaldséð.

Eftir það gerðist tvennt. Daníel Freyr fór að verja ennþá betur og Magnús Óli hrökk í gang í sókn Valsmanna. Hann var frábær í leiknum og skoraði átta mörk, öll nema eitt í síðari hálfleik. Hann var bara í ham í þessum leik og strákarnir okkar réðu ekkert við hann.

Þegar tíu mínútur voru eftir voru Valsarar allt í einu komnir þremur mörkum yfir og okkar menn þurftu að grafa djúpt til að hleypa spennu í leikinn. Ási minnkaði muninn í tvö úr víti og svo gerðist umdeilt atvik. Jakob Martin náði að koma fingurgóm í boltann þegar Valsarar voru að senda á milli. Hann tók sprett til að ná að komast í hraðaupphlaup og boltinn var laus um miðjan völl. Danni kom æðandi upp að miðju og náði boltanum með því að rennitækla á parketinu. Hann og Jakob skullu við þetta harkalega saman og mikið mildi var að hvorugur meiddist.

Reglurnar eru kýrskýrar, sama hvað sérfræðingar á samfélagsmiðlum vilja halda fram. Danni fékk rauða spjaldið réttilega og FH-ingar fengu víti, sem Ási skoraði úr. Eitt mark og FH-ingar einum fleiri. Magnús Óli tók misheppnað skot og Birkir Fannar skoraði þvert yfir völlinn.

Leonharð átti flotta innkomu í hægra hornið / Mynd: Jói Long

Manni fannst að FH væri að fara að klára þetta þegar Birkir Fannar varði skotið frá Ými í næstu sókn. Ennþá einum fleiri og í sókn. Því miður klikkaði eitthvað. Einar Baldvin Baldvinsson náði að verja skotið í næstu sókn og þá var eins og botninn dytti úr þessu. Valsarar komust yfir, náðu að stoppa næstu sókn okkar manna og juku muninn í tvö mörk. Þeir enduðu á að sigla sigrinum í höfn og svo gott sem tryggðu sér þriðja sætið í deildinni með því.

Maður leiksins.

Í leik þar sem margir áttu slatta inni báru Ágúst og Ásbjörn af. Sá síðarnefndi skoraði átta, þar af fimm úr vítum og skapaði sjö færi fyrir samherja sína. Ég ætla samt að gefa Ágústi þetta, fjögur mörk úr fimm skotum og spilaði varnarleikin mjög vel.

Næst á dagskrá eru tveir leikir við Akureyrarliðin, sá fyrsti í Kaplakrika gegn Akureyri og í lokaleik deildarinnar fara okkar menn norður til að spila við KA. Síðan bíður okkar úrslitakeppnin. Það er nægur handbolti eftir í vetur og okkar menn munu læra helling af þessum leik gegn Val.

Við erum FH!
– Ingimar Bjarni

Mörk FH: Ásbjörn Friðriksson 8/5, Ágúst Birgisson 4, Leonharð Þorgeir Harðarson 4, Einar Rafn Eiðsson 3, Arnar Freyr Ársælsson 3, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 1, Birkir Fannar Bragason 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 6/1, Kristófer Fannar Guðmundsson 5

Aðrar fréttir