Valur spáir FH sigri gegn Val

Valur spáir FH sigri gegn Val

Valur bjó lengi vel í Breiðholtinu en ferðaðist í strætó að
Hlíðarenda til að fara á æfingar ásamt nokkrum öðrum drengjum, ca. 10 þegar
mest lét.

Í Val lék okkar maður með ekki ómerkari mönnum en Ólafi
Stefánssyni, Degi Sigurðssyni, Óskari Bjarna Óskarssyni ásamt mörgum öðrum og
var sá flokkur gríðarlega sigursæll, unnu allt sem hægt var að vinna á þeim 10
árum sem Valur lék á Hlíðarenda. Tvítugur að aldri hélt Valur norður yfir
heiðar ásamt Óskari Bjarna og lék í 2 ár með KA þangað til hann fór til
Danmerkur. Að lokinni Danmerkurdvöl kom Valur heim ef svo má segja og lék með
FH við góðan orðstír þangað til í fyrra. FH vann sér sæti í efstu deild að nýju
og var Valur fyrirliði liðsins svo hann hætti á góðum tímapunkti og skildi við
FH í góðum málum.

Val líst vel á liðið í dag, góð blanda af yngri og eldri
leikmönnum, auk þess sem góðir leikmenn hafa bæst við hópinn. „Fyrir tímabilið
var raunhæft að halda sæti sínu í deildinni en nú með tilkomu nýrra leikmanna
sé ég liðið ná í úrslitakeppnina. Ungu strákarnir bættu sig gríðarlega mikið í
sumar að styrk, þeir eiga fullt erindi í eldri leikmennina og það er búið að
vera gaman að sjá menn eins og t.d. Sigga línumann(Sigurð Ágústsson) eiga í
fullu tré við suma jakana í deildinni þrátt fyrir að vera ekki mjög þungur. Það
er bjart framundan í FH,“ segir Valur.

Hvað leikinn í dag varðar, undanúrslit í bikar, gegn
Hlíðarenda-piltum er Valur bjartsýnn. „Ég tel Val vera með sterkara lið á
pappírnum, þeir eru ásamt Haukum Íslandsmeistarakandídatar að mínu mati. Ég
segi samt að það getur allt gerst í bikarnum og ætla því að vera rosalega
bjartsýnn og spá FH sigri, 28-26.“

Þetta eru góð lokaorð sem við vonum að verði að
raunveruleika. FH.is þakkar Val Arnarssyni fyrir spjallið og hvetur alla
FH-inga, unga sem aldna, að mæta að Hlíðarenda og styðja liðið með ráðum og
dáðum alla leið í bikarúrslit í Laugardalshöll.

Áfram FH!

Aðrar fréttir