Vandræðalaus sigur gegn Víkingi styrkti stöðuna á toppnum

Topplið FH vann enn einn sigurinn í Olísdeild karla í vetur þegar næstneðsta lið deildarinnar, Víkingur, kom í heimsókn í Kaplakrika.

Óðinn Þór var í eldlínunni að vanda / Mynd: Jói Long

Strákarnir afgreiddu þennan leik af mikilli fagmennsku. Fyrsta mark leiksins var Víkinga, en því fylgdu síðan 8 mörk FH-inga í röð. Eftir 10 mínútna leik var leiknum því nánast lokið, augljóst var fyrir hverjum sem leikinn sá að Víkingar myndu ekki hirða stig úr Krikanum í þetta skiptið.

Gestirnir minnkuðu muninn úr 7 mörkum niður í 4 mörk um miðjan fyrri hálfleikinn, en sú mótspyrna dugði skammt. Góður varnarleikur og frábær markvarsla Birkis Fannars Bragasonar sá til þess, að munurinn fór vaxandi. Þá fundu okkar menn ávallt leiðir framhjá vörn Víkinga. Staðan í hálfleik var 17-8, FH í vil, sem var síst of mikill munur miðað við gang leiksins.

Jóhann Birgir var í miklu stuði í leik dagsins

FH-liðið steig ekki af bensíngjöfinni í síðari hálfleik og hélt áfram að bæta við muninn, þrátt fyrir að leiknum væri í raun lokið. Jóhann Birgir Ingvarsson steig upp og setti 8 mörk í 9 skotum í leiknum – mikið ánægjuefni, enda er kappinn nýstiginn upp úr meiðslum. Vel náðist að dreifa mínútum á leikmenn í síðari hálfleik og gott framtak fékkst frá hverjum þeim sem inn á kom, sem er afar jákvætt upp á framhaldið.

Að lokum vannst 13 marka sigur á nýliðunum, 35-22 – vel verðskulduð 2 stig í sarp strákanna okkar, sem sitja sem fastast á toppi Olísdeildarinnar með 28 stig af 32 mögulegum.

Líkt og áður kom fram átti Jóhann Birgir frábæran leik í FH-liðinu í dag, en hann skoraði 8 mörk með frábærri nýtingu. Óðinn Þór Ríkharðsson var baneitraður að vanda, með 7 mörk úr 8 skotum, og þá var Ágúst Birgisson drjúgur á línunni gegn félaginu sem karl faðir hans lék með um árabil. Hann skoraði 5 mörk úr 7 skotum. Alls komust 10 leikmenn FH-liðsins á blað, sem var frábært að sjá.

Birkir Fannar bauð okkur öllum í afmælisveislu í dag, en hann lokaði rammanum á löngum köflum

Maður leiksins var að öðrum ólöstuðum Birkir Fannar í markinu, en hann fór á kostum á 30. afmælisdegi sínum. Birkir spilaði allan leikinn og varði 18 skot, sem gerir 47% hlutfallsmarkvörslu. Svona á að halda upp á stórafmæli!

Ekki er annað hægt en að dást að FH-liðinu fyrir það viðhorf sem það sýnir, leik eftir leik, gegn liðum sem fyrirfram teljast lakari. Það hefur skinið í gegn í síðustu tveimur leikjum, gegn Gróttu og Víkingi – og raunar í allan vetur. Aldrei vanmeta FH-ingar andstæðina sína. Þeir mæta þeim af festu frá fyrstu mínútu, líkt og um úrslitaleik sé að ræða í hvert sinn, enda er sú eiginlega raunin í toppbaráttunni. Þannig bera alvöru íþróttamenn sig.

Það er nákvæmlega þetta viðhorf sem strákarnir þurfa að viðhalda næsta fimmtudag, en þá koma Framarar í heimsókn í 8-liða úrslitum bikarsins. Samanlagt unnu FH-ingar gestina úr Safamýri með 30 marka mun í deildarleikjum liðanna í vetur, en það gefur þeim nákvæmlega ekki neitt í þessum leik. Bikarkeppnin er allt annað skrímsli, og þar getur allt gerst. Framarar eru þar fyrir utan mikil ólíkindatól, og með góða leikmenn innanborðs sem geta gert hverjum sem er skráveifu.

Strákarnir ætla sér í Final Four í Höllinni á ný, enda er þessi stærsta helgi íslenska handboltans nokkuð sem öll lið vilja taka þátt í. Ég ætla rétt að vona að við – fólkið í stúkunni – viljum það jafn mikið og þeir.

Sparið röddina í vikunni, kæru FH-ingar. Við þörfnumst hennar á fimmtudaginn.

Við erum FH!

Mörk FH: Jóhann Birgir Ingvarsson 8, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Ágúst Birgisson 5, Einar Rafn Eiðsson 4, Ásbjörn Friðriksson 3, Ísak Rafnsson 3, Eyþór Örn Ólafsson 2, Einar Örn Sindrason 1, Þorgeir Björnsson 1, Jakob Martin Ásgeirsson 1.

Varin skot: Birkir Fannar Bragason 18 (47%)

 

Aðrar fréttir