
Velkomin í FH Sigríður Lára
Sigríður Lára Garðarsdóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við FH. Sísí, eins og hún er jafnan kölluð, er Eyjakona og kemur til liðs við FH frá ÍBV þar sem hún hefur spilað allan sinn feril á Íslandi. Að auki hefur hún spilað eitt tímabil í efstu deild í Noregi. Hún er mjög reynslumikill leikmaður og hefur spilað tæplega 150 leiki í efstu deild í meistaraflokki og hefur skorað í þeim 22 mörk. Alls hefur hún spilað 183 leiki í meistaraflokki og skorað 32 mörk. Það er ljóst að það er mikill liðsstyrkur fyrir FH að fá Sigríði Láru til liðs við félagið enda á hún að baki 18 leiki með A landsliðinu auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin. Því er það okkur FH-ingum mikið gleðiefni að Sísí hafi ákveðið að ganga til liðs við félagið og taka þátt í baráttunni með okkur í Pepsí Max deildinni næsta sumar. Velkomin í FH Sísí.