Viðtal: Ragnhildur Guðmundsdóttir

Viðtal: Ragnhildur Guðmundsdóttir

Jæja Ragnhildur hvernig líður þér eftir ferðina til Litháen?

Mér líður bara mjög vel, þetta er alltaf skemmtilegt, og alltaf gríðarlegur heiður að spila fyrir Ísland sérstaklega þegar að vel gengur. Þetta var mikilvægur árangur hjá okkur og tryggðum við okkur rétt á umspilsleikjum næsta vor um sæti á EM. Þannig að það er væntanlega bara bjart framundan.

Náðuð þið eitthvað að kynnast landi og þjóð?

Það er nú yfirleitt mjög takmarkað í svona ferðum, það sem að maður sér er flugvöllurinn, hótelið og íþróttahúsið.

Er mikill munur á Íslandi og Litháen?

Handboltalega séð ekki svo mikill ef að við hefðum spilað eðlilegan leik á móti þeim hefði þetta bara verið jafn leikur. En það er mikil fátækt í þessu landi og allt annar lifistandard en við erum vanar. Sérstaklega fannst okkur mikill munur á matnum, við fengum t.d einu sinni pylsur í morgunmat og pönnukökur með kjöti inni í. Þetta var ekki alveg að slá í gegn hjá mannskapnum.

En snúum okkur að mótinu. Hvaða væntingar gerði liðið fyrir mótið?

Væntingarnar fyrir mótið voru að sjálfsögðu að vera í topp 3 og koma okkur í umspilsleikina.

Nú töpuðu þið illa í fyrsta leik. Var enginn uppgjöf í liðinu eftir þann leik?

Nei alls ekki ég held að það hafi bara verið ágætis spark í rassinn á okkur. Þetta sýndi okkur bara að það væri ekkert gefið í þessu og við yrðum að spila toppleiki til að ná okkar markmiðum

Nú kláruðuð þið hina leikina með stæl var ekki gríðarlega stemmning í hópnum þegar leið á mótið?

Jú að sjálfsögðu var mikil stemmning í hópnum og gríðarlega skemmtilegt að fá að taka þátt í þessum leikjum. Sérstaklega í ljósi þess hvað það var jákvæð umfjöllun um okkur heima á meðan á mótinu stóð og svo fór Hlynur frá handbolti.is með okkur út og náði að gera mótinu og okkur góð skil. Hann var mikið að taka viðtöl og myndir af okkur sem gerði þetta mjög skemmtilegt.

Segðu okkur frá síðasta leiknum við Hvít-Rússa?

Það var náttúrulega vitað fyrirfram að það yrði hörkuleikur og við ætluðum okkur ekkert nema sigur í þeim leik. Hvít-Rússarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og við ekki alveg vaknaðar en náðum að koma okkur inn í leikinn fyrir hálfleik og svo var þetta bara mikil barátta í seinni hálfleik. Við komumst marki yfir þegar um 30 sek eru eftir af leiknum sem reyndist vera sigurmarkið í leiknum þar sem að þær klúðruðu ágætis tækifæri á að jafna leikinn, það brutust að sjálfsögðu út gríðarleg fagnaðarlæti hjá okkur þegar að flautan gall.

Hvernig gekk þér persónulega í mótinu?

Mér gekk bara ágætlega, var að spila vinstri skyttu allt mótið, var persónulega svekkt með að fá ekki að spila meira á miðjunni en held að ég hafi náð að skila mínu hlutverki vel. En annars bara frábært að fá að vera hluti af liðinu og vona ég bara að ég nái að skila einhverju af þessu í FH liðið.

En að lokum ertu bjarsýn á gengi FH-liðsins eftir áramót?

Já ég get ekki verið annað en það við erum að bæta okkur leik frá leik og mér sýnist allt vera á réttri leið. Verður líka spennandi að sjá þennan nýja leikmann sem að við erum að fá og vonandi verður það til þess að við vinnum einhverja leiki eftir áramót.

Raghildi er þakka fyrir spjallið og óskað góðu gengi á komandi tímabili.

Aðrar fréttir