Viðtal við Elvar Guðmundsson

Viðtal við Elvar Guðmundsson

Jæja Elvar, þá er komið að útileik gegn Selfossi. Hvernig leggst leikurinn í mannskapinn?

“Leikurinn leggst vel í okkur, eins og allir leikir.  Þurfum að koma sterkir til baka eftir tap í síðasta leik og tryggja okkur 2 stig, annars verður framhaldið mjög erfitt fyrir okkur.”

Verður lagt upp með eitthvað sérstakt í leiknum?

“Nei, ekkert sem ég hef heyrt af.   Held við verðum bara að einblína á að spila okkar leik, þ.e. að halda “konceptinu” frá síðustu leikjum, að spila agaðan og yfirvegaðan sóknarleik og grimman varnarleik þá sækjum við stigin sem verða í boði.”

Nú eigum við FH-ingar nokkra unga og efnilega markmenn sem eru á þröskuldinum við að spila í meistaraflokki, en almennt er umræðan á Íslandi sú að það skorti töluvert upp á þjálfun ungra markmanna. Hvernig má bæta þetta og hver var þín reynsla af þessum málum þegar þú varst að spila í Danmörku?

“Það er rétt, mér líst vel á þá markmenn sem eru að koma upp úr yngri flokkunum hjá FH.  En það má gera miklu betur í því að þjálfa markmenn og gera það starf markvissara.  T.d hafa fastan hálftíma til klukkutíma á viku þar sem markmenn fara í gegnum séræfingar undir leiðsögn þjálfara eða leikmanns sem hefur reynslu af því að spila sjálfur í markinu. Hjá sumum liðum í Danmörku er sér markmannsþjálfari sem sér alfarið um og ber ábyrgð á markmannsþjálfun.  Eitthvað róttækt þarf allavega að gera því við erum töluvert á eftir þessum betri þjóðum hvað varðar markvörslu.”

Þrátt fyrir breytt mótafyrirkomulag hefur enn vantað svolítið upp varðandi aðsókn á leiki og áhuga almennt á handboltanum. Hvað er til ráða hér á landi til þess að rífa boltann upp á ný?

“Fyrir það fyrsta þarf að taka af skarið og byrja að sýna beint frá þýska handboltanum í sjónvarpinu.  Eins má gera meira úr boltanum í íslensku sjónvarpi með vikulegum þáttum, og þá á ég við betri þætti en Handboltakvöld á RÚV.   T.d. “Boltinn með Steina Arndal” eða e-ð í þeim dúr.  Einnig mætti setja fasta leikdaga á þetta, t.d á föstudögum með einum sjónvarpsleik á laugardegi og svo kæmi þátturinn á mánudegi sem myndi kryfja umferðina með viðtölum við dómara og þess háttar.  Eins mætti gera umgjörðina skemmtilegri fyrir áhorfendur í húsunum, t.d með öflugri veitingasölu, dansandi klappstýrum og fleira í þeim dúr.”

Að lokum Elvar, hverjir taka HM í sumar!?

“Argentína”

FH – Selfoss, föstudaginn 17. mars kl. 20.00 á Selfossi.

Áfram FH!

Aðrar fréttir