Viðtal við Kristinu Kvaderine

Viðtal við Kristinu Kvaderine



Kristina Kvaderine er tiltölulega nýr
markmaður meistaraflokks kvenna en stúlkan sú kemur frá Litháen og hefur búið á
Íslandi í um 6 ár. Kristina er liðinu frábær liðsstyrkur þar sem hún hefur
leikið með Haukum og Fram við góðan orðstír. Hún hefur mikla reynslu af
stórleikjum og segir að henni finnist skemmtilegast að spila mikilvæga leiki og
standa bikarúrslitaleikir þar uppúr.




FH.is byrjaði á að spyrja hana hvort hún væri ekki ánægð með að vera komin á
fjalir Kaplakrika?


„Jú, FH-stelpurnar eru fínar og ég er ánægð með þetta og Mummi er frábær
þjálfari og það er hans vegna að ég kom til FH. Ef ekki hefði verið fyrir hann
þá hefði ég sennilega ekki komið,“ sagði Kristina kát með Guðmund Karlsson
þjálfara. Þegar spurt var út í úrslitakeppnina og möguleika FH-liðsins á að
komast þangað sagði Kristina:
„Ég vona að við komumst þangað enda eru það
leikir sem alla leikmenn langar að spila. Það vantar enn smá upp á að við náum
4. sætinu.“

Mótherji FH-liðsins á morgun eru Íslands- og
bikarmeistarar Stjörnunnar svo það er við ramman reip að draga en hafa ber í
huga að FH vann Stjörnuna í fyrra og hefur sýnt góða spilamennsku á köflum í
vetur samanber sigur á Val fyrir jól. Kristina var spurð út í hvað þyrfti til
að leggja Stjörnuna.

„Í fyrsta lagi þurfum við að spila góða vörn og með vörninni kemur markvarslan.
Eins þurfa stelpurnar að hugsa ekki of mikið um Florentinu í marki Stjörnunnar.
Við þurfum bara að hugsa um okkur og hafa gaman af þessu,“ sagði Kristina sem
að lokum spáði 24-24 jafntefli.


Aðrar fréttir