Viðtal við Ólaf og Guðjón

Viðtal við Ólaf og Guðjón

FH.is náði í skottið á tveimur miklum herramönnum, Ólafi Gústafssyni, leikmanni meistaraflokks FH og svo einnig Guðjóni Árnasyni, leikmanni FH frá 1992 – en það ár vann FH einmitt síðast titilinn stóra.

Byrjum á Ólafi.

Sæll Óli, hvernig leggst leikurinn í þig ?
Ólafur: Heyrðu leikurinn leggst bara vel í mig, hef mjög góða tilfinningu fyrir miðvikudeginum

Nú leiðið þið einvígið 2-1. Er ekki stefnan og draumurinn að taka titilinn heima í Krikanum ?
Ólafur: Að sjálfsögðu er stefnan sett á sigur, og það væri vel uppfylltur draumur að lyfta bikarnum fyrir framan 3 þúsund manns í krikanum.

Einvígið er búið að vera hnífjafnt í alla staði, er þetta ekki eitthvað sem mátti búast við ?
Ólafur: Jú þetta eru tvö jöfn lið og leikirnir vinnast ekkert fyrr en á síðustu mínútu, svona á þessi úrslitakeppni að vera.

Mun tapleikurinn fyrir norðan hafa áhrif á liðið ?
Ólafur: Nei hann mun ekki gera það frekar en sigurleikirnir, við höldum bara okkar leik áfram, enda býst engin við að fara í gegnum svona einvígi 3-0.

Eru einhver meiðsli innan hópsins ?
Ólafur: Ef einhver er meiddur þá ætti það ekki að stöðva neinn í að spila þegar svona langt er komið, við erum allir all in!

Og svo að Guðjóni.

Jæja Gauji. Fyrir það fyrsta, hvernig líst þér á liðið í dag?
Guðjón: Mér líst afar vel á liðið í dag. Það virkar í góðu jafnvægi og tilbúið í svona stóran slag sem þessi rimma er. Að mínu mati er Baldvin Þorsteinsson lykilmaður í þessum árangri. Hann er svona síðasti hlekkurinn sem vantaði í keðjuna, frábær varnarmaður og öflugur sóknarlega en fyrst og fremst virðist hann koma inn sem ákveðinn leiðtogi sem rekur allt liðið áfram þegar á þarf að halda.

Teluru mikla möguleika að við munum taka þetta í kvöld?
Guðjón: Engin spurning í mínum huga, við vinnum í kvöld nokkuð öruggan sigur. Og fögnum vel og lengi:-)

Er mikill munur frá þessu liði og liðinu ’92?
Guðjón: Já ég myndi segja að það væri nokkur munur. Liðið í dag er mjög sterkt en í mínum huga er ’92 liðið eitt það besta sem FH hefur átt og heilt yfir betra en liðið í dag. Þar var valinn maður í hverju rúmi og meira og minna landsliðsmenn í öllum stöðum. Það er þó erfitt að bera saman, leikurinn hefur breyst nokkuð og orðinn mun hraðari.

Væri ekki frábært að taka titilinn í fyrsta skipti síðan ’92 og þá voru þú og Beggi og fleiri í liðinu?
Guðjón: Það væri auðvitað frábært að taka loksins titil eftir allan þennan tíma. Þessu hafa FH-ingar beðið eftir með mikilli óþreyju lengi. Og loksins mun ég þá losna við þann eina titil sem ég vil ekki vera bendlaður við…………………..þ.e. að vera síðastur fyrirliða FH til að taka á mót titli!!

Stuðningur áhorfenda hefur verið frábær er það ekki?
Guðjón: Stuðningsfólk okkar FH-inga á enga sína líka. Það hefur sannast margoft áratugum saman. Það er engu líkt að vera leikmaður FH fyrir fullu húsi þegar mikið er undir. Þessi stuðningur hefur í gegnum tíðina skipt öllu máli á erfiðum stundum í leikjum og fleytt liðinu yfir erfiðu hjallana. Þessu fólki verður seint fullþakkað og ég skora á fólk að mæta í kvöld og styðja strákana, þeir þurfa svo sannarlega á því að halda á móti virkilega góðu liði Akureyringa. Stútfullur Krikinn er okkar áttundi maður. Áfram FH!

Aðrar fréttir