Viðtal við Ragnhildi Rósu

Viðtal við Ragnhildi Rósu

Segðu okkur aðeins frá leiknum í kvöld.

Við byrjuðum af miklum krafti og vorum að spila góða vörn og fengum þar af leiðandi markvörslu og hraðaupphlaup. Við náðum strax föstum tökum á leiknum og létum það tak ekki af hendi þó að seinni hálfleikur hafi ekki veirð eins vel spilaður af okkar hálfu og sá fyrri. Sigurinn var þó í sjálfu sér aldrei í hættu. En alls enginn glans leikur hjá okkur og það eru fullt af hlutum sem við þurfum að laga fyrir næsta leik á móti Gróttu.

Nú hafið þið sigrað tvo af síðustu þremur leikjum og þar á undan áttuð þið góðan leik gegn Stjörnunni. Eruð þið komnar á skrið?
Já við náðum góðum 10 marka sigri á Akureyri sem var alls ekki sjálfgefið þar sem þær eru með sterkan heimavöll. Það var virkilega góður leikur af okkar hálfu. Við erum hægt og bítandi að bæta okkur og erum hvergi nærri hættar. Þessi leikur við Fylki var mikilvægur fyrir okkur og vonandi lýsandi fyrir það sem koma skal.

Hvernig er stemninginn í liðinu?
Stemningin í liðinu er virkilega góð fínn mórall og við erum staðráðnar í að landa fleiri sigrum áður en yfir líkur.

Nú eruð þið búnar að jafna Fylki að stigum og aðeins eru tvö stig í HK. Er raunhæft að stefna á að klára deildina fyrir ofan þessi tvö lið?
Já ég tel það raunhæft en til þess þurfum við að spila töluvert betur en við gerðum í dag. En á góðum degi eigum við að geta unnið hvaða lið sem er.

Hver eru ykkar markmið fyrir afganginn af tímabilinu?
Okkar markmið eru í rauninni skýr fyrir restina af mótinu: Við ætlum að halda áfram að bæta okkar leik og vonandi ná í nokkra sigra í viðbót.

Nú eigið þið ekki leik aftur fyrr en 5. apríl (heima gegn Gróttu). Finnst þér gott að fá þessa hvíld eða
hefðir þú viljað spila aftur sem fyrst til að nýta ykkur meðbyrinn?
Ég held að eftir leikinn í dag sé gott fyrir okkur að fá smá pásu til að vinna í ákveðnum hlutum. Og fyrst þessi pása er þá er náttúrulega fínt að fara inn í hana með sigur á bakinu, það hleypir að sjálfsögðu sjálfstrausti í liðið sem við vonandi nýtum í komandi leiki.

Hvernig munuð þið nota tímann þangað til að Gróttuleiknum?
Við munum fyrst og fremst nota hann til að skerpa á ákveðnum hlutum sem að voru ekki að ganga eins og skyldi í kvöld. Og að sjálfsögðu æfa á fullu og reyna að borða ekki yfir okkur af páskaeggjum?

Eitthvað að lokum?
Vil bara minna alla FH-inga á að við stöndum í mikilli baráttu um að klifra upp töfluna og stuðningur áhorfenda skiptir gríðarlega miklu máli.
Áfram FH!

Aðrar fréttir