Meistararnir bitu frá sér

Meistararnir bitu frá sér

FH-ingar stilltu upp sama byrjunarliði og í síðasta leik en nú voru allir á tánum frá því að Ólafur Ragnarsson dómari flautaði til leiks á iðagrænum Kaplakrikavelli.

Áhorfendur þurftu ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu sem Matthías Vilhjálmsson skoraði með glæsilegri hjólhestaspyrnu. Stuttu síðar slapp nafni hans Matthías Guðmundsson inn fyrir vörn Víkings og lyfti boltanum laglega í netið. FH-ingar voru ekki hættir og hinn sókndjarfi bakvörður Guðmundur Sævarsson skoraði einkar laglegt mark. Víkingar minnkuðu muninn fyrir hlé eftir hornspyrnu.

FH-ingar komu afar ákveðnir til síðari hálfleiks og héldu uppi nánast stöðugri pressu að Víkingsmarkinu og hver flóðbylgjan af annarri skall á Víkingsmarkinu en inn vildi boltinn ekki. Eftir um 20 mínútur af seinni hálfleik sljákkaði sóknarbrími FH-inga og Víkingar komust betur inn í leikinn. En enn hafði feita konan ekki sungið sitt síðasta því á 90. mínútu var Tryggvi Guðmundsson fljótur að hugsa og tók aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Víkinga með hraði og sendi boltann inn á vítateig þar sem hrægammurinn Atli Guðnason lyfti boltanum yfir markvörð Víkings og í netið.

4-1 góður sigur og FH-ingar eru heldur betur komnir á skrið því þeir léku virkilega vel í þessum leik. Víkingar voru reyndar ekki mikil fyrirstaða og verða að spila betur ef þeir vilja ekki lenda í vandræðum en engu að síðar var afar góð hreyfing á FH-liðinu og þeir voru duglegir, pressuðu og gáfu Víkingunum engan frið.

Í raun lék allt FH-liðið vel og erfitt að taka einhverja út. Matthías Guðmundsson var þó mjög sterkur á kantinum og Sverrir Garðarsson sem fyrr öflugur í hjarta varnarinnar.

Aðrar fréttir

[ajax_load_more container_type="div" css_classes="row" post__not_in="2056" seo="true" repeater="template_2" post_type="post" posts_per_page="4" order="DESC" orderby="date" scroll="false" transition_container="false" button_label="Fleiri fréttir" button_loading_label="sæki fréttir..." no_results_text="Ekkert fannst"]