Áramótaávarp Jóns Rúnars.

Áramótaávarp Jóns Rúnars.

Kæru stuðningsmenn FH

Enn eitt afreksárið hjá okkur FH-ingum er á enda runnið. Íslandsmeistaratitill, sá fimmti á s.l. sex árum, árangur sem fáir hafa leikið eftir. Það má færa fyrir því rök að mun erfiðara sé að ná árangri sem þessum nú á seinni árum þar sem samkeppni er mun meiri en áður fyrr.

Það er margt sem gerir okkur að besta liði á Íslandi, gott barna- og unglingastarf,góðir þjálfarar yngri og eldri flokka og svo frábærir stuðningsmenn. Þegar ég tala um stuðningsmenn á ég við þann trygga hóp fólks sem hefur staðið við bakið á okkar mönnum mörg undafarin ár,fólk sem sækir leiki,fólk sem fylgist með og leggur sitt af mörkum. Það er hverju liði ómetanlegt að finna fyrir áhuga og stuðningi frá sínum stuðningsmönnum.

Á því ári sem nú er að líða hafa átt sér stað nokkur atvik þar sem stuðningsmenn hafa verið ósáttir við verk þeirra manna sem stjórna meirtaraflokksráði FH. Það er gott til þess að vita að stuðningsmenn séu tilbúnir til þess að láta í sér heyra þegar þeim mislikar framganga stjórnarmanna og formanns. Ég sem formaður fagna því þegar fólk fer fram með gagnrýni en við verðum að vanda okkur í verki. Það verður aldrei svo að allt það sem gert er falli að skoðun allra stuðningsmanna.

Ég vil hvetja alla okkar góðu stuðningsmenn til góðra verka fyrir félagið á komandi ári. Það má öllum vera ljóst að komandi ár verður okku að mörgu leyti erfitt og á ég þá sérstaklega við fjárhagslega. Við þurfum ekki að óttast neitt hvað varðar getu okkar liðs, þar höfum við topp fólk í hverri stöðu, þjálfara sem og leikmenn.Það bíða margir ungir leikmenn á hliðarlínunni, bíða eftir að fá tækifæri til þess að sanna sig. Það verður nú sem áður farið í að styrkja liðið, við höfum misst nokkra frábæra leikmenn en á móti fengið tvo jafn frábæra en betur má ef duga skal.

Ég vil hvetja ykkur til þess að halda áfram að taka virkan þátt í starfinu,byrja að undirbúa komandi keppnistímabil og mæta til leiks í vor sterkari og fleiri. Þannig getið þið hjálpað okkar mönnum til þess að vinna alla þá titla sem í boði eru.

Óska öllum ykkur gleðilegs árs og farsældar á komadi ári.

Jón Rúnar Halldórsson

Formaður knattspyrnudeildar FH

Aðrar fréttir