Bikarinn fór á loft í gær

Bikarinn fór á loft í gær

Síðasta umferð Pepsi-deildar karla fór fram í gær og fengu FH-ingar Valsmenn í heimsókn í Kaplakrika. Leikar fóru 2-1 fyrir Fimleikafélagið en mörkin gerðu Albert Brynjar Ingason og Ólafur Páll Snorrason. Haukur Páll Sigurðsson minnkaði muninn fyrir Val seint í leiknum.

 

Góður sigur staðreynd hjá FH og lokaniðurstaða Íslandsmótsins sú að FH-ingar enda með 13 stiga forskot á næsta lið. Gríðarlegir yfirburðir hjá þessu stórkostlega FH-liði.

 

Ekki er hægt að skilja við þennan lokaleik sumarsins án þess að geta þess að hann var einnig lokaleikur Bjarka Gunnlaugssonar sem leikið hefur stórkostlega í sumar. Þessi 39 ára gamli snillingur á að baki magnaðan feril og vann til að mynda Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn fyrir sléttum tuttugu árum eða árið 1992 með Skagamönnum. Kappinn hefur nú lagt skóna á hilluna og eru FH-ingar Bjarka að sjálfsögðu gríðarega þakklátir fyrir framlag hans síðustu ár.

 

Fagnaðarlætin voru ósvikin í leikslok og hlupu yngri flokkar FH inn á aðalvöllinn til að fagna með meisturunum. Gunnleifur Gunnleifsson reif bikarinn á loft við mikinn fögnuð fjölda FH-inga sem studdu liðið áfram í gær.

 

Stórkostlegu fótboltasumri lokið og sjötti Íslandsmeistaratitillinn í höfn. Enn og aftur; til hamingju FH-ingar nær og fjær!

Aðrar fréttir