Bikarveisla á morgun: 4. flokkur karla og 2. flokkur karla í eldlínunni

Bikarveisla á morgun: 4. flokkur karla og 2. flokkur karla í eldlínunni


FH-ingar eiga tvo fulltrúa í bikarúrslitum yngri flokkanna sem fram fara í Laugardalshöll á morgun, 27. febrúar. Það eru lið 4. flokks karla og 2. flokks karla, en bæði lið unnu lið Hauka í undanúrslitum á þriðjudaginn var. Mótherjar liðanna eru Selfoss í 4. flokki en Stjarnan í 2. flokki, tvö hörkulið sem háð hafa harða hildi við lið FH-inga á undanförnum misserum. Það verður því örugglega hart barist í höllinni á morgun og hvetjum við á FH.is ALLA til að mæta og styðja við bakið á þessum ungu og efnilegu liðum.

FH – Selfoss, bikarkeppni 4. flokks karla, kl. 12:00
Hér er í raun um að ræða þrjú bestu lið landsins í 4. flokki karla, en FH-liðið í bikarnum er samansett úr tveimur FH-liðum sem bæði leika sem A-lið í 1. deild 4. flokks. FH 1, sem er skipað leikmönnum sem eru fæddir 1995,  situr í 1. sæti með 20 stig og eiga leik til góða á lið Selfoss, sem situr í 2. sæti með 18 stig. Í þriðja sæti situr síðan lið FH2, skipað leikmönnum sem fæddir eru árið 1996, með 16 stig. Strákarnir í FH1 hafa leikið 11 leiki, unnið 10 þeirra en tapað einum leik. Selfyssingar hafa hins vegar leikið 12 leiki, unnið 9 þeirra en tapað þremur. Lið FH2 hefur spilað 13 leiki, unnið 7 leiki, gert 2 jafntefli en tapað 4 leikjum. Það má því búast við gríðarlega spennandi leik, enda tvö hörkulið sem innihalda marga leikmenn er koma eflaust til með að láta mikið af sér kveða í meistaraflokki félaganna tveggja innan nokkurra ára.

Leiðir liðanna tveggja í bikarúrslitin eru eftirfarandi:
32 liða úrslit
Fjölnir B1 18-32 FH
Haukar B2 0-10 Selfoss (leikur gefinn)

16 liða úrslit
Fylkir A 17-28 FH
Fram A 40-41 Selfoss (eftir framlengingu og vítakeppni)

8 liða úrslit
Þróttur 22–24 FH
Fram B1 19–25 Selfoss

Undanúrslit
FH
28 – 17 Haukar A
Grótta A 24 – 29 Selfoss

FH – Stjarnan, bikarkeppni 2. flokks karla, kl. 19:00
Hér mætast einnig tvö sterk lið. FH-ingar eru sem stendur í efsta sæti 1. deildar 2. flokks með 15 stig, stigi meira en lið Vals sem er í 2. sæti. Stjarnan er í 5. sæti deildarinnar en þó munar einungis tveimur stigum á liðunum tveimur. FH-ingar eiga þó leik til góða á lið Stjörnunnar. Hér má því búast við spennandi leik, rétt eins og í 4. flokki.

Liðin tvö hafa mæst tvisvar í vetur, einu sinni í Mýrinni í Garðabæ og einu sinni í Krikanum. Í bæði skiptin hafa FH-ingar unnið sigur; 26-28 í Mýrinni en 35-27 í Krikanum.
Þess má geta að þessi lið mættust í úrslitum bikarsins í fyrra, en þar unnu FH-ingar tveggja marka sigur, 31-29. Það má því segja að Stjörnumenn hafi harma að hefna í leik morgundagsins.

Leið liðanna tveggja í úrslit bikarsins er eftirfarandi:
16 liða úrslit
Stjarnan 26-19 ÍR
FH-ingar þurfu ekki að taka þátt í þessari umferð, enda ríkjandi bikarmeistarar.

8 liða úrslit
FH
31-21 ÍBV
Stjarnan 30-24 Akureyri

Undanúrslit
FH 30-28 Haukar
Valur 25-27 Stjarnan

Eins og sjá má er hér um að ræða tvo hörkuleiki og eiga bæði FH-liðin við erfiða andstæðinga að etja. Við viljum því hvetja alla FH-inga til að mæta í Laugardalshöllina á morgun og fylgjast með handboltastjörnum framtíðarinnar og styðja þá til sigurs. Leikirnir byrja eins og áður sagði kl. 12:00 (4. flokkur) og 19:00 (2. flokkur).

Við erum FH!

Aðrar fréttir