Davíð Snær og Lasse Petry í FH

Fimleikafélag Hafnarfjarðar gekk frá kaupum á þeim Davíð Snæ Jóhannssyni og Lasse Petry. Davíð Snær kemur frá Lecce á Ítalíu og gerir samning út 2025. Lasse Petry kemur frá HB Köge í Danmörku, áður spilaði hann til að mynda fyrir Val hér heima.

Davíð Snær Jóhannsson spilaði fyrir Keflavík áður en hélt út til Ítalíu og gekk í raðir Lecce. Karl faðir hans, Jóhann Birnir Guðmundsson spilaði lengi vel erlendis og því ekki langt fyrir kauða að sækja hæfileikana.

„Ég er virkilega sáttur með að vera mættur í Kaplakrika. Hér er mikill metnaður, frábær aðstaða og ég tel þetta vera mjög góðan stað til að bæta sig sem leikmaður og einstaklingur. Ég lít björtum augum á framtíðina hérna hjá FH, hér er verið að slípa saman lið sem er góð blanda af ungum og reyndari leikmönnum sem hafa allir það markmið að færa heim bikara í Kaplakrika. Ég mun leggja mitt á vogaskálarnar með mínum styrkleikum. Áfram FH!“ Sagði Davíð Snær í samtali við FH Miðla.

Davíð Snær

Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu var að vonum sáttur við komu Davíðs.

„Við erum hæstánægðir með að hafa náð í Davíð Snæ, hann hefur verið undir smásjá okkar lengi og við bindum miklar vonir við það að hann geti orðið einn af burðarstólpum liðsins í náinni framtíð. Hann er góður á boltanum, orkumikill og framsækinn leikmaður. Hann passar vel inn í þann fótbolta sem Óli og Bjössi vilja spila og ég er handviss um að hann muni skemmta okkur FH-ingum næstu árin” segir yfirmaður knattspyrnumála Davíð Þór Viðarssonn.

Lasse Petry eins og áður segir kemur frá danska 1.deildarliðinu HB Köge. Hann endurvekur kynni sín við Ólaf Jóhannesson, en Lasse var leikmaður undir hans stjórn hjá Val.

,,Ég var ekki búin að vera að byrja marga leiki hjá mínu gamla liði, þannig þegar Óli og Davíð hringdu í mig sá ég þetta sem stórt tækifæri að spila í mjög góðu liði með mörgum góðum leikmönnum og þjálförum. Lukkulega hefur fjölskyldan mín alltaf staðið við bakið á mér og þetta var aldrei spurning. FH er stórt félag á Íslandi sem á skilið að vera við toppinn, svo vonandi get ég hjálpað til að ná í sigra og það byrjar á miðvikudaginn. Ég get ekki beðið eftir að byrja og allir hjá félaginu hafa tekið vel á móti mér. Þannig ég er mjög ánægður hér og tilbúinn að gera allt fyrir félagið”. Sagði Lasse Petry í samtali við FH Miðla.

Lasse Petry

“Lasse sýndi okkur það árið 2020 hversu öflugur leikmaður hann er þegar hann var einn allra besti leikmaður Íslandsmótsins. Það sem hann kemur með að borðinu eru fyrst og fremst gæði, hann er mjög góður á boltanum og getur stýrt trafíkinni í leikjum. Hann er einnig öflugur varnarlega, með mjög góðan leikskilning og getur bundið liðið saman. Óli og Bjössi þekkja hann vel eftir að hafa unnið með honum áður og ég er ekki í vafa um það að þeir eigi eftir að ná því besta út úr honum á þessari leiktíð!” sagði Davíð Þór um Lasse Petry.

Aðrar fréttir