"Ég fer með þessa borgara upp á næsta level"

"Ég fer með þessa borgara upp á næsta level"

Eins og áður hefur komið fram þá mætast FH og Stjarnan í N1 deild karla annað kvöld. Að vanda verður fírað upp í grillinu í Kaplakrika og grillmeistarinn að þessu sinni er engin annar en Jón Þórðarson, líkamsræktarfrömuður okkar Hafnfirðinga. Nonni í Hress eins og hann er kallaður í daglegu tali mætir með frítt föruneyti með sér á grillið. Starfsfólk Líkamsræktarstöðvarinnar Hress mun sjá til þess að Nonni fari sér ekki að voða á grillinu, þar má t.d nefna Hilla bodypump kennara og Ragga spinningkennara, Ásta Lilja móttökustjóri sér svo um það að allir viðskiptavinir FH-grillsins gangi sáttir frá borði.


Fólkið hjá Hress er í fínu formi, í ræktinni
jafnt og á grillinu.


Það þurfti ekki að pína Nonna til að mæta í Krikann og sjá um grillið á þessum leik. Hann hefur einfaldlega kítlað í fingurna síðan að hann sá æfingafélaga sinn hann Heimir Guðjóns grilla ofan í mannskapinn fyrir leik FH og Hauka fyrr í vetur.

Nonni óskaði sérstaklega eftir því að fá að mæta á leik FH og Stjörnunnar þar sem að hann ólst upp í bláa Stjörnubúningnum og æskuminningarnar eru úr Garðabænum. Hann sagðist taka vel á móti öllum Garðbæingum sem að kæmu og keyptu hamborgara og hvatti þá til að fjölmenna í Kaplakrika. “ Það er engin svikinn af því að mæta á leik í Kaplakrika, umgjörðin hjá FH-ingum er til mikillar fyrirmyndar og það er ekkert lið á íslandi sem að fær jafn marga áhorfendur á völlinn. Það er alltaf eitthvað í gangi eins og Bónusskotið og Vegamótaleikurinn,  því er tilvalið að taka alla  fjölskylduna með og taka kvöldmatinn í Kaplakrika. Ég get lofað því að ég fer með þessa borgara upp á næsta level. Og ef að fólk borðar yfir sig þá er bara eitt í stöðunni og það er að mæta í Hress daginn eftir og svitna fyrir allan peninginn.“ sagði Nonni í Hress.

Handknattleiksdeild FH þakkar Nonna og starfsfólki hans að sjálfsögðu fyrir að taka þetta skemmtilega verkefni að sér. Eins þakkar handknattleiksdeildin sínum frábæru styrktaraðilum Hunt‘s og Kjötkompaníinu fyrir að styðja svona vel við FH-grillið, en það er mál manna að grill þemað hafi verið einstaklega vel heppnað í vetur og þetta er orðinn fastur liður hjá mörgum FH-ingnum að mæta tímalega á leiki og nærast í góðra manna hópi.                

FH.is hvetur fólk til þess að mæta snemma og eiga góða kvöldstund í Kaplakrika, topp matur, topp handbolti og topp skemmtun.

Grein: Sigursteinn Arndal

Aðrar fréttir