Fagmannlegur sigur í fyrsta heimaleik ársins

Bjarni Fritzson mætti í Kaplakrika í gær með lærisveina sína úr Breiðholtinu og freistaði þess að stöðva sigurhrinu okkar manna á árinu 2019. Það gekk ekki upp og FH vann ákaflega fagmannlegan fimm marka sigur í Krikanum þar sem Jóhann Birgir átti stórleik og setti tíu mörk.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað. ÍR skoraði fyrsta markið, FH komst yfir, ÍR komst í 3-4 og Jóhann Birgir jafnaði 4-4. Hann skoraði þrjú af næstu fjórum mörkum FH, var greinilega komin í þennan geggjaðan gír sem hann á inni, þar sem honum halda engin bönd.

Þegar Jói er í þessum gír, þá stoppa hann fáir / Mynd: Jói Long

Í stöðunni 8-6 ákvað Bjarni Fritz að sýna smá frumleika sem þjálfari. Stephen Nielsen er ekki alveg heill og í stað þess að setja inn ungan og óreyndan markmann til að snúa taflinu við, sneri hann sér að 49 ára Sebastian Alexandersyni, sem er betur þekktur sem reiði kallinn í Seinni bylgjunni. Alveg smá fyndið en gamli maðurinn hefur átt betri leiki, okkar menn settu boltann framhjá honum meira eða minna að vild. Á sama tíma small FH-vörnin og okkar menn náðu myndarlegu fjögurra marka forystu.

Þá var eins og einbeitingin fjaraði aðeins út hjá okkar mönnum og ÍR-ingar náðu að saxa á. Þeir náðu að minnka muninn í eitt mark, áður en okkar menn nýttu sér vel klikk í sókn ÍR-inga og refsuðu. Munaði þar líka um innkomu Birkis Fannars í markið, sem varði hraðaupphlaup Kristjáns Orra Jóhannssonar þegar sá síðarnefndi gat jafnað leikinn. FH fór inn í hálfleik með þriggja marka forystu, 17-14.

Byrjun seinni hálfleiks var mjög svipuð og lok þess fyrri. ÍR-ingar hótuðu að gera þetta að spennuleik en þegar þeir nálguðust okkur settu strákarnir okkar í aðeins hærri gír. Birkir Fannar átti virkilega flottan hálfleik og varði 10 bolta í honum.

Birkir Fannar kom afar öflugur inn í leikinn og reyndist Breiðhyltingum erfiður / Mynd: Jói Long

Þegar þrettán mínútur voru eftir voru ÍR búnir að saxa niður í eitt mark. Þá tók Dóri leikhlé, staðan 22-21. Átta mínútum seinna var staðan allt í einu orðin 29-22 og leikurinn unninn. Þessi kafli var ekki langur, en hann var með þeim allra bestu sem okkar menn hafa spilað í vetur. Jói fór meðal annars og skoraði þrjú mörk í röð, og þá átti Leonharð gullfallega línusendingu sem Ágúst þakkaði fyrir með því að skora.

Að lokum fór leikurinn 31-26 og eru okkar menn því komnir með 24 stig, einu stigi frá toppsætinu. Næsti leikur er gegn einu af þeim tveimur liðum sem hefur sigrað okkar menn í vetur, Selfossi, á föstudaginn klukkan átta.

Punktar eftir leik:

  • FH er búið að vera á mjög góðu róli eftir áramót. Komnir í undanúrslit bikarsins, búnir að vinna þrjá í röð í deildinni með samtals 20 mörk í plús. Maður er orðinn virkilega bjartsýnn á að strákarnir kveðji Dóra með allavega einni dollu.
  • Jóhann Birgir kom úr tveggja leikja banni og var lang besti maður vallarins. Vel gert.
  • Birkir Fannar kom inn og átti virkilega góðan leik.
  • Það eru sex leikir eftir í deildinni: Selfoss, Afturelding, ÍBV, Valur, KA og Akureyri. Þetta er ekki auðvelt leikjaprógramm, en ef liðið heldur þessum dampi þá er allt mögulegt.

Við erum FH!
– Ingimar Bjarni

Mörk FH: Jóhann Birgir Ingvarsson 10, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 5, Ásbjörn Friðriksson 5/1, Leonharð Þorgeir Harðarson 4, Ágúst Birgisson 2, Arnar Freyr Ársælsson 2, Birkir Fannar Bragason 1, Davíð Stefán Reynisson 1, Eyþór Örn Ólafsson 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 11/2, Kristófer Fannar Guðmundsson 2.

Aðrar fréttir