FH á skilið að fara í úrslitakeppnina

FH á skilið að fara í úrslitakeppnina

FH.is hafði samband við útvarpsmanninn og fyrrum sjónvarpsmannin, Snorra Sturluson. Snorri hefur verið okkar fremsti íþróttafréttamaður til margra ára og er nú ritstjóri á siðunni Sport.is.

1 – Hvernig líst þér á stórleikinn í kvöld, FH – Valur?
Það bendir flest til þess að þetta verði hörkuleikur; tvö ágæt handboltalið og mikið undir.  Nú er baráttan um sæti í úrslitakeppninni í algleymingi og úrslitin í þessum leik leggja ákveðnar línur hvað það varðar.  Menn vita hvað er í húfi og eiga væntanlega eftir berjast til síðasta svitadropa.  Það er svo sem enginn stóri sannleikur í þessu öllu, liðin þekkjast ágætlega og eru að mörgu leyti svolítið lík, þannig að þetta gæti orðið mikið taugastríð og stemmningin í húsinu verður væntanlega mögnuð.

Hvernig hefur þér fundist FH-liðið fúnkera í vetur það sem þú hefur séð?
FH-liðið hefur eiginlega verið hálfgerð ráðgáta í vetur.  Annan daginn spilar það eins og verðandi meistarar og þann næsta eins og firmalið.  Þegar FH er í góðum takti er liðið illviðráðanlegt og stórskemmtilegt á að horfa.  FH býr yfir mjög áhugaverðum kostum í sóknarleiknum og sóknin er sjaldnast til vandræða.  Stundum virðist sem það þurfi að stilla varnarleikinn aðeins betur af, en þegar hann er í þokkalegu lagi er FH-liðið til alls líklegt.

Helduru að liðið hafi alla burði til þess að fara í úrslitakeppni og alla leið þar?
FH á skilið að fara í úrslitakeppnina, svona þegar litið er á heildina.  Þegar þangað er komið getur auðvitað allt gerst, þrjú liðanna sem þangað komast hafa verið og eru býsna jöfn, en toppliðið hefur ekki sýnt mörg veikleikamerki…fyrr en á síðustu vikum.  Fyrirfram virðast erkifjendurnir í rauðu búningunum líklegastir til afreka, en botninn hefur aðeins dottið úr leik þeirra og þá er þetta allt galopið í allar áttir.  Ef FH-ingar ná að gíra sig upp, fækka feilum og illa ígrunduðum ákvörðunum og spila eins og þeir eiga að sér gætu þeir komið ansi mörgum á óvart. 

4 – Hvað þurfa FH-ingar að nýta sér gegn Valsmönnum í kvöld?
Valsmenn hafa verið að koma til í síðustu leikjum sínum, menn sem átt hafa við meiðsli að stríða eru að skríða saman og góður sigur á Ásvöllum á dögunum sýndi að Hlíðarendapiltar eru til alls líklegir.  FH-ingar verða að vanda skotvalið mjög vel, Valsvörnin og Bubbi markmaður hafa náð vel saman upp á síðkastið og leggja verður áherslu á að stoppa hraðaupphlaupin hjá Val.  Ef þeir ná að trekkja upp hraðann er voðinn vís.  Varnarleikurinn verður að vera í lagi hjá FH og Pálmar í sínum alþekkta ham gegn sínum gömlu félögum.  Bjarni Fritzson á eftir að skila sínu, það er gefið, og þá á eftir að mæða talsvert á útimönnunum þremur hjá FH í sókninni og þeir verða að vera þolinmóðir.  Þolinmæði og skotval, lykilatriði fyrir FH.

5 – Einhverjar tölur fyrir leikinn?
Annað liðið mun komast yfir snemma leiks.  Eftir það gerast hlutir sem ómögulegt er að sjá fyrir.

Aðrar fréttir