FH – Haukar í bikarnum!

FH – Haukar í bikarnum!

Í gær var dregið í 8-liða úrslitin í Eimskips bikarkeppni karla í
handknattleik og ljóst er að baráttunni um Fjörðinn er hvergi nærri
lokið, því FH dróst að sjálfsögðu á móti Haukum. Síðasti leikur liðanna, þann 5.nóvember sl. var ógleymanlegur, enda Kaplakrikinn nánast fullur útúr dyrum, þakið ætlaði að rifna af í látunum og úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndum þegar Aron Pálmarsson komst inn í sendingu Haukamanna í stöðunni 29-28 og úrslitin því ljós.

Liðin mættust hinsvegar síðast í bikarnum árið 2006. Það var einmitt líka í 8-liða úrslitunm og fór leikurinn fram í Kaplakrika. Þann leik unnu gestirnir 38-33, en lið FH lék þá í 1.deildinni og er leiksins einna helst minnst fyrir stórleik Heiðars Arnar Arnarssonar, hins ástsæla fréttaritara FH-síðunnar og leikmann meistaraflokks karla, sem fór hreinlega á kostum og setti ein 14 mörk.

Það má því búast við handboltaveislu í byrjun desember, en bikarumferðin fer fram 7. og 8. desember og verður þessi stórleikur að sjálfsögðu auglýstur betur þegar nær dregur.

Áfram FH!

Aðrar fréttir