FH-ingar á leið til Portúgal

FH-ingar á leið til Portúgal

Nú í aprílbyrjun skartar Portúgal sínu fegursta, hiti er um 20 gráður og nokkuð um regnskúri. 20 leikmenn hafa verið valdir til fararinnar en með þjálfurum, sjúkraþjálfara, liðstjórum og stjórnarmönnum telur hópurinn um 26-28 alls. Hópurinn kemur aftur heim laugardaginn eftir viku. Við tókum viðtal við þjálfarann geðþekka þar sem hann var í óða önn að raða í ferðatöskuna.

Blessaður Heimir, hvernig verður dagskráin úti?
Við munum æfa tvisvar á dag og væntanlega spila tvo leiki. Þann fyrri við Djurgarden á þriðjudag og svo við portúgalskt lið á fimmtudag/föstudag.

Á hvað er lögð áhersla á þessum æfingum?
Á morgnana verður meira tempó og djöfulgangur en seinni partinn  þá förum við meira í leikskipulag, færslur, föst leikatriði ofl.

Hvernig ástand er á mannskapnum, einhver meiðsli?
Það er náttúrulega með þessa ungu stráka, þeir þola ekkert álag! Tómas Leifsson og bræðurnir Atli og Árni Freyr Guðnasynir eiga við smávægileg meiðsli að stríða en ég hef nú trú á að þeir komi sterkir til leiks í Portúgal. Tommy Nielsen er meiddur eins og menn vita og verður ekki klár fyrr en um mánaðamótin apríl/maí. En góðu fréttirnar eru þær að Sverrir Garðarsson hefur hafið æfingar og verður væntanlega eitthvað í bolta úti í Portúgal.

Hvernig líst þér á nýju Danina?
Við erum ekki búnir að sjá þá í leik en þeir lofa góðu og við bindum miklar vonir við þá.

Eruð þið ánægðir með leikmannahópinn eða má búast við frekari liðsstyrk?
Við erum mjög sáttir við hópinn. Við höfum orðið fyrir ákveðnum skakkaföllum en teljum að með tilkomu Danana og með því að fá Davíð Þór Viðarsson aftur að við séum með góðan hóp.

Sérðu fram á að ungu leikmennirnir munu spila stórt hlutverk í sumar?
Það er eingöngu undir þeim sjálfum komið. Við eigum marga efnilega stráka sem hafa staðið sig ágætlega á æfingum og í leikjum en það er algjörlega undir þeim sjálfum komið hvort þeir séu nógu góðir til að komast í liðið.

Eruð þið með sólarvörn?
Já, það held ég. Er það ekki númer 15.

Aðrar fréttir