FH-ingar hefja úrslitakeppnina af krafti

FH-ingar hefja úrslitakeppnina af krafti

Undanúrslit Íslandsmótsins í handknattleik karla hófust í kvöld þegar FH-ingar tóku á móti liði Fram í Kaplakrika. Fyrirfram mátti búast við virkilega jöfnum leik, enda hér á ferðinni hnífjöfn lið sem hafa háð marga harða hildi fyrr í vetur – en í leikjum liðanna í vetur hafa þau unnið einn sigur hvorn og gert eitt jafntefli í þokkabót. Markatalan var þar að auki jöfn, 92-92, sem sýnir enn frekar fram á það hversu jöfnum leik mátti búast við.

Sú varð þó ekki raunin.

Segja má að lið Framara hafi lent á vegg í Krikanum í kvöld. FH-ingar mættu gífurlega ákveðnir til leiks og náðu strax frumkvæðinu, komust t.a.m. mjög fljótlega í 4-1 og lögðu þar með línurnar fyrir leikinn. Hélst munurinn á milli liðanna í kringum 3-4 mörk allan fyrri hálfleikinn og má þar þakka frábærum varnarleik og flottum sóknarleik. FH-ingar leiddu í hálfleik, 14-9, og það má því segja að útlitið fyrir síðari hálfleikinn hafi verið vægast sagt gott. Markahæstur í liði FH-inga í fyrri hálfleik var Ólafur Gústafsson með 3 mörk en Ásbjörn Friðriksson, Örn Ingi Bjarkason, Ólafur Guðmundsson og Ari Magnús Þorgeirsson skoruðu allir 2 mörk.

Í síðari hálfleik héldu FH-ingar áfram að ráða lögum og lofum. Framara virkuðu örlítið ákveðnari, en það bara dugði ekki gegn vel spilandi og baráttuglöðu FH-liði. Varnarleikur FH-liðsins var sterkur sem fyrr og að sama skapi bættu FH-ingar í sóknarlega séð. Mestur varð munurinn á liðunum 9 mörk í seinni hálfleik, sem endurspeglaði yfirburði FH-liðsins nokkuð vel. Að lokum unnu FH-ingar virkilega sterkan og jafnframt sanngjarnan 7 marka sigur, 29-22, og leiða því einvígi liðanna. Tvo leiki þarf að vinna til þess að komast í úrslitaviðureignina, og því tryggja FH-ingar sig í úrslit Íslandsmótsins sigri þeir næsta leik liðanna, sem fram fer í Fram-heimilinu (Safamýri) á laugardaginn næsta. Markahæstur FH-inga í kvöld var Ásbjörn Friðriksson með 7 mörk en næstur honum kom Ólafur Guðmundsson með 6 stykki. Daníel Andrésson varði 10 skot í markinu og Pálmar Pétursson varði 3 skot, þar af eitt vítakast.

Þegar á heildina er litið geta FH-ingar ekki verið annað en sáttir með leik kvöldsins. Þeir gerðu nákvæmlega það sem þurfti að gera: verjast af hörku, berjast af krafti og sækja á agaðan máta. Það skóp þennan sigur fyrst og fremst. Ljóst er að FH-ingar eru í hörkuformi og virka fullir sjálfstrausts fyrir annan leik liðanna sem fram fer á laugardaginn í Safamýrinni.

Vel var mætt í kvöld og er hægt að gera ráð fyrir að um 1,300 manns hafi lagt leið sína í Krikann til að sjá leikinn. Stuðningurinn við liðið var mjög góður, og ekki spurning að hann hjálpaði strákunum mikið í baráttu þeirra við Fram-liðið. En rimman er langt frá því að vera búin, og því viljum við hvetja FH-inga til að fjölmenna í Safamýrina kl. 16:00 og styðja okkar stráka fram til sigurs!

Við erum FH!

<span style="LINE-HEIGHT: 115%; COLOR

Aðrar fréttir