Flottur sigur á spræku liði Fjölnis

Flottur sigur á spræku liði Fjölnis

FH vann í gær góðan sigur á sprækum nýliðum Fjölnis, 1-0. Atli Guðnason skoraði eina mark leiksins eftir sautján mínútna leik. 

Bæði lið höfðu fyrir leikinn ekki tapað neinum leik í fyrstu sex umferðunum. Fjölnismenn höfðu verið sprækir og því var mikilvægt að ná inn marki snemma sem varð svo raunin. Emil Pálsson gerði vel í að koma boltanum á Atla sem skaut í varnarmann og yfir Þórð í marki Fjölnis og inn.

Okkar menn fengu nokkur færi til að bæta við fleiri mörkum, en tvisvar til þrisvar þurfti Robbi að taka á honum stóra sínum. Hann átti afbragðsleik sem og flestir í liði FH.

Lokatölur urðu eins og fyrr segir, 1-0, sigur okkar manna. Fjórði 1-0 sigurinn á tímabilinu og liðið einungis fengið á sig tvö mörk í fyrstu sjö leikjunum sem er fáheyrð tölfræði!

Okkar menn eru á toppnum með sautján stig, tveimur stigum á undan Stjörnunni sem er í öðru sæti, og fimm stigum á undan Keflavík og Val, sem eru í þriðja og fjórða sæti.

Gaman var að sjá hversu margir FH-ingar lögðu leið sína á völlinn í Grafarvoginum í gærkvöldi og studdu okkar menn áfram!

Næsti leikur liðsins er gegn Þór á heimavelli á sunnudaginn. Nánar um þann leik síðar í vikunni! 

Aðrar fréttir