Flottur sigur hjá strákunum á Val

Flottur sigur hjá strákunum á Val

Sport.is:

FH tók á móti Val í leik tveggja stórvelda í íslenskum handbolta.
Bæði lið unnu í síðustu umferð og voru á góðu skriði. Það voru
heimamenn í FH sem lögðu Valsmenn af velli með tveimur mörkum, 29-27.
Það var góður kafli rúmum tíu mínútum fyrir leikslok sem skóp sigurinn,
FH náði þá mest sex marka forskoti.

FH 29 – 27 Valur
(12-13)

Í fyrri hálfleik var jafnt á öllum tölum. Markmenn beggja voru að
verja vel, en varnir liðanna voru mjög fastar fyrir sem skýrði lágt
markaskor. Valsmenn náðu tveggja marka forustu þegar fimm mínútur voru
eftir af fyrri hálfleik þegar Hlynur Morthens varði þrjú skot FH í
röð.  FH svaraði strax með marki og því var staðan sem fyrr jöfn.
 Staðan var 13-12 fyrir Val í hálfleik og það var ekki mögulegt að spá
fyrir um þróun seinni hálfleiks þar sem liðin nánast skiptust á að
skora. Skyldi annað liðið ná þriggja til fjögurra marka forustu í
seinni hálfleik gæti það nægt til sigurs.

Fyrstu mínútur seinni hálfleiks einkenndust af sömu spennunni og í
fyrri hálfleik. FH missti tvo menn útaf með stuttu millibili en tókst
að halda næstu tveimur mínútum jöfnum þökk sé klaufaskap Vals.  Þegar
seinni hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður komu þrjú mörk frá FH í
röð og staðan orðin 23-20, sóknarleikur Vals var afar stirrður á þessum
tíma á meðan  Ragnar Jóhannsson og Hjalti Pálmason skoruðu góð mörk
fyrir FH. Valsmenn tóku í kjölfarið leikhlé. FH liðið hélt áfram
forskotinu og bætti bara í, náði mest sex marka forskoti, 28-22. Vörn
Vals var afar slök á þessum tíma og það virtist sem leikmenn liðsins
misstu alveg hausinn. Síðustu þrjár mínútur leiksins voru þó spennandi,
Valsmenn náði muninum niður í tvö mörk en hefðu þurft tvær mínútur í
viðbót til að fá eitthvað útúr leiknum.  Heimamenn unnu góðan tveggja
marka sigur. Valsmenn þurfa meira frá fleiri leikmönnum til að vinna
svona spennuleiki gegn toppliðunum. Hjá FH voru Andri Berg, Ólafur
Gústafsson og Ragnar Jóhannsson bestir. Ragnar kom sér í góð færi og þá
voru Andri og Ólafur traustir í markaskorun. Vörn FH var sterk,
sérstaklega í seinni hálfleik.
Valsmenn sakna Valdimars Þórssonar mikið, en hann er ekki heill heilsu
og er aðeins hálfur maður á velli. Hlynur Morthens er ávallt traustur í
markinu en það þurfa fleiri en Sturla og Anton Rúnarsson að stíga upp.
Menn eins og Finnur Stefánsson og Magnús Einarsson þurfa að skila
fleiri mörkum til að Valsmenn verði baráttu um sæti í úrslitakeppninni
í vetur en þangað stefna Hlíðarendapiltar ávallt.

Mörk FH: Ragnar Jóhannsson 7, Atli Rúnar
Steinþórsson 5, Örn Ingi Bjarkarson 4, Andri Berg Haraldsson 4, Hjalti
Pálmason 3, Ólafur Gústavsson 3, Baldvin Þorsteinsson 2, Halldór
Guðjósson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 12, Sigurður Arnarson 5.

Næsti leikur strákanna er í Belgíu 9 október, sunnudaginn gegn Inita Hasselt í 2. umferð EHF bikarsins.

Aðrar fréttir