Fram-úrskarandi varnarleikur skipti sköpum í Safamýrinni

Stelpurnar okkar nældu sér í fyrsta sigur tímabilsins í gærkvöldi, þegar þær lögðu að velli ungmennalið Fram í Safamýrinni. Varnarleikur og markvarsla voru í aðalhlutverki hjá FH-liðinu og lögðu grunninn að sigrinum.

FH-liðið lék án Sylvíu Blöndal, sem var í leikbanni eftir að hafa fengið rautt spjald að loknum leik liðsins við HK U í fyrstu umferð. Var það skarð fyrir skildi, enda góður leikmaður þar á ferð sem lék vel í fyrsta leik tímabilsins.

Umsátursástand! Sóknarmenn Fram fengu engan frið / Mynd: Brynja T.

Okkar konur voru hins vegar staðráðnar í að ná í sigur frá fyrstu mínútu. Þær voru fljótlega farnar að leiða leikinn, og frá stöðunni 2-3 létu þær forystuna aldrei af hendi. Gott lið Framara gafst að vísu aldrei upp, og þetta var alltaf leikur, en ávallt héldu okkar konur Safamýrarstelpunum  í hæfilegri fjarlægð.

Þær leiddu lengst af með 2-4 mörkum, voru 4 mörkum yfir í hálfleik og þegar leiknum lauk var sanngjarn þriggja marka sigur staðreynd, 19-22. Fyrstu 2 stig tímabilsins þar með í húsi!

Miðjublokkin varði ófáa bolta í leik gærdagsins / Mynd: Brynja T.

Eins og áður sagði var varnarleikur FH í leiknum í kvöld í aðalhlutverki, enda var hann á köflum stórkostlegur. Miðjublokkin, með Britney Cots og Fanneyju Þóru Þórsdóttur í aðalhlutverki, sýndi engum nokkra miskunn. Almennt gekk vörn FH-inga hart ,,Fram”, og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Andstæðingurinn náði aðeins að skora 6 mörk í fyrri hálfleik, sem segir margt um þéttleika og festu FH-varnarinnar. Þar á bak við stóð Ástríður Þóra Viðarsdóttir vaktina með prýði, en hún varði 15 skot í leiknum.

Það sem vörnin tók ekki, varði Ástríður Þóra / Mynd: Brynja T.

,,Fram”-ar á vellinum voru þær stöllur Britney og Fanney einnig í stóru hlutverki; Britney í þeim fyrri, allt þar til hún var tekin úr umferð, og Fanney í þeim seinni. Einnig kom Embla Jónsdóttir afar sterk inn í síðari hálfleik og skoraði þá mikilvæg mörk. Annars dreifðst markaskorið ágætlega á FH-liðið í leiknum. Ekki gekk alltaf vel að skora, því Framarar stóðu vörnina einnig vel, en vörn FH-liðsins var blessunarlega sterkari og markvarsla Ástríðar kom þar í ofanálag.

Næsti leikur FH-liðsins er fimmtudaginn 4. október, en þá koma Fjölnisstelpur í heimsókn í Krikann. Meira um þann leik þegar nær dregur.

Við erum FH!

Mörk FH: Fanney Þóra Þórsdóttir 6, Britney Cots 4, Embla Jónsdóttir 4, Ragnheiður Tómasdóttir 3, Aníta Theodórsdóttir 3, Hildur Guðjónsdóttir 1, Diljá Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Ástríður Þóra Viðarsdótir Scheving 15 (44%).

Aðrar fréttir