Gleði og sorg í Höllinni

Gleði og sorg í Höllinni

FH – Selfoss 4. flokkur karla

Það var boðið upp á frábæran handbolta og þá sérstakalega sóknarleik, þegar FH og Selfoss leiddu saman hesta sína í Laugardalshöll í gær, annað árið í röð í úrslitum bikarsins. Þessi lið hafa margsinnis mæst í úrslitaleikjum á síðustu árum og því var spennan mikil fyrir leikinn.

Leikurinn byrjaði vel fyrir okkar menn sem skoruðu mörk úr öllum regnbogans litum og höfðu forystu 13-10 í hálfleik. Eitthvað var teið sem boðið var upp í hálfleik skrítið, því að FH-ingar slökuðu á í byrjun seinnihálfleiks og hleyptu Selfoss aftur inn í leikinn. Frá því að staðan var 15-15 var jafnt á nánast öllum tölum upp í 23-23, en þá jöfnuðu Selfyssingar þegar 50 sekúndur voru eftir. Þegar 15 sekúndur voru eftir skoraði Ólafur Guðmundsson svo 24. mark FH-inga og Selfyssingar náðu ekki að nýta sér tímann sem eftir lifði til að jafna.

Þar með er FH bikarmeistari annað árið í röð í 4.flokki karla, sannarlega glæsilegt það. Strákarnir spilu gríðarlega góða sókn í gær en fundu sig engan veginn í vörninni. Selfyssingar spiluðu virkilega góðan handbolta í gær og geta verið stoltir af sinni frammistöðu. Þeir voru satt að segja óheppnir að ná ekki einhverju meira útúr leiknum. En að lokum var það sigurvilji FH strákanna sem gerði gæfumuninn og FH fagnaði bikarmeistaratitlinum innilega.


FH – Valur 3. flokkur karla

Úff, hvar á maður að byrja. Þvílíkur leikur. Fyrir þennan leik hafði 3.flokkur FH spilað 18 leiki í vetur, unnið 17 og gert eitt jafntefli, og sat á toppi deildarinnar. Í undanúrslitum höfðu þeir slegið út frábært lið HK í skemmtilegum leik. Það er stundum sagt að það styttist alltaf í tapið með hverjum sigurleik og það átti eftir að koma á daginn.

Lið Vals er gríðarlega gott lið með marga mjög líkamlega sterka leikmenn innanborðs. Það er eiginlega óhætt að segja að FH-strákarnir hafi hlaupið á vegg frá fyrstu mínútu og þegar þeir sluppu í gegnum “vegginn”, var markmaður Vals ekkert slor í gær. Hann varði 29 skot og þar af mörg úr dauðafærum. Leikurinn var gríðarlega skemmtilegur fyrir áhorfendur og gríðarlega stressandi og erfiður fyrir leikmenn og þjálfarana. Í hálfleik höfðu okkar menn yfir 12-11, eftir að Valur hafði leitt allan fyrri hálfleik.

Eftir nokkurra mínútna leik í seinnihálfleik virtust FH ingar vaknaðir, komnir í 15-12. En þá kom skelfilegur kafli þar sem Valur skoraði 10 mörk gegn 3 mörkum FH og staðan orðin 22-18. Þegar 3 mínútur voru eftir af leiknum voru Valsmenn með unninn leik í höndunum í stöðunni 26-22. En á einhvern ótrúlegan hátt, sem verður seint útskýrður, náði FH að knýja fram framlengingu, 26-26. Þar voru Valsmenn einfaldlega sterkari eins og allan leikinn og unnu sanngjarnan sigur 30-29.

Erfitt er að útskýra slakan leik FH-inga í þessum leik. Valsmenn vildu einfaldlega meira og uppskáru eftir því. Strákarnir lögðu sig þó alla í verkefnið og eiga hrós skilið fyrir það. Eini leikmaður FH sem náði sér virkilega á strik var Daníel markmaður sem átti frábæran leik. Aðrir geta miklu betur. Við FH-ingar berum þó höfuðið hátt eftir þennan leik. Við getum verið stoltir af okkar frammistöðu, hegðuðum okkur eins og sannir íþróttamenn, innan sem utan vallar. Að lokum viljum við óska Heimi Ríkharðssyni, þjálfara Vals og leikmönnum hans, innilega til hamingju með sigurinn.  

Takk fyrir okkur!

Umgjörðin í Laugardalshöll var frábær í gær og á HSÍ gríðarlegt hrós skilið fyrir að hafa sett þennan dag upp. Ég efast ekki um að nokkur leikmaður sem spilaði í gær muni gleyma þessum degi í bráð.

Við FH-ingar getum einnig verið gríðarlega stoltir af okkar fólki því umgjörðin í kringum liðin okkar var frábær alla helgina. Á laugardag buðu Muggararnir öllum strákunum í hádegismat. Ingvar Viktorsson mætti og hélt eina af sínum frægu

Aðrar fréttir