Hafnarfjarðarmót – Keppnisliðin

Hafnarfjarðarmót – Keppnisliðin

Stórmót verður haldið í Íþróttahúsinu við Strandgötu dagana 28. – 30 ágúst í boði Hafnarfjarðarbæjar en mótið er liður í 100 ára afmælishátíð bæjarins. Á mótinu etja kappi heimaliðin FH og Haukar, Valur og stórliðið Nordsjælland frá Danmörku. Búast má við hörkuleikjum og neðangreint eru upplýsingar um keppnisliðin.

FH-liðið í dag er skipað mörgum ungum og efnilegum leikmönnum í bland við eldri og reyndari en liðið sigraði 1. deild karla sannfærandi í vor og spila því í úrvalsdeild næsta vetur.

FH hefur æft afar vel í sumar og leikmenn bætt líkamlegan styrk sinn ásamt því að margir leikmanna liðsins hafa verið önnum kafnir í unglingalandsliðum Íslands og náð góðum árangri.

Kjarni liðsins er sá sami en einhverjar breytingar hafa þó orðið á liðinu í sumar. Til liðsins hefur komið Hjörtur Hinriksson, reyndur hægri hornamaður, uppalinn FHingur frá Fram. Hjörtur átti tvö góð tímabil þar og spilaði t.a.m. með þeim í meistaradeildinni. Ásbjörn Friðriksson, skytta, uppalinn á Akureyri hefur einnig bæst við hópinn. Hann átti mjög gott tímabil með Akureyri í fyrra og hjálpaði liðinu að halda sér í úrvalsdeildinni. Síðast en ekki síst skal nefna Magnús Sigmundsson þaulreyndan markvörð, uppalinn hjá FH sem á að baki Íslandsmeistaratitla með Haukum, síðast í fyrra en hefur einnig spilað með ÍR.

Aðra sterka leikmenn liðsins skal nefna hornamanninn Guðmund Pedersen, markahæsta mann liðsins og 1. deildarinnar í fyrra og Aron Pálmarsson ungan og efnilegan leikstjórnanda sem var allt í senn valinn, besti sóknarmaður, efnilegasti leikmaður og besti leikmaður 1. deildar í vor.

FHingar eru fullir tilhlökkunar til mótsins og ætla sér stóra hluti.

Danska úrvalsdeildarliðið Nordsjælland håndbold mun spila á Hafnarfjarðarmótinu. Nordsjælland (hét áður Team Helsinge) á það sameiginlegt með FH liðinu að vera með töluvert af ungum og efnilegum leikmönnum í bland við nokkra reynda leikmenn.

Liðið spilar hraðann handbolta eins og dönskum liðum er vona og vísa.

Þeirra máttarstólpar eru markvörðurinn Kristian Asmussen, sem áður spilaði með Minden í Þýskalandi og Altea á Spáni og franski markvörðurinn Jerome Casal sem áður spilaði með FCK og Hildesheim í Danmörku.

Aðra sterka leikmenn má nefna Nikolej Markussen sem er nýbakaður heimsmeistari með 20 ára landsliði Dana. Hann er 211 cm á hæð og mikið efni. Morten Slundt er hættulegur miðjumaður sem skoraði ógrynni af mörkum í dönsku úrvalsdeildinni í fyrra. Hornamenn þeirra eru teknískir og ber þar helst að nefna Kasper Klitgaard.

Fyrir þetta tímabil hefur Norsjælland styrkt sig og fengu til liðs við sig t.a.m. hægri bakvörðinn Fredrik Wahlström, sem var fjórði markahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar í fyrra, Ian Marco Fog fyrrverandi fyrirliða danska landsliðsins og spilaði lengi vel með Gummersbach í Þýskalandi og Serbann Dusan Milicevic sem kom frá Rostock. Síðast en ekki síst gekk Íslendingurinn Gísli Kristjánsson til liðs við Nordsjælland eftir að hafa spilað með FCK og Fredricia í Danmörku.

Þjálfari liðsins heitir Henrik Kronborg og er hann talinn einn efnilegasti þjálfari Dana.

Aðrar fréttir